Menntaskólanum í Reykjavík var slitið í 176. sinn við brautskráningu stúdenta í Háskólabíó föstudaginn 27. Maí.  Brautskráðir voru alls 208 nýstúdentar.

Dúx 6. bekkjar að þessu sinni var Katrín Ósk Arnarsdóttir sem útskrifaðist með aðaleinkunn upp á 9,88. Katrín stundaði nám við náttúrufræðibraut skólans. Semidúx árgangsins var Hildur Gunnarsdóttir af eðlisfræðibraut með aðaleinkunn upp á 9,87. Alls hlutu 31 nemandi viðurkenningu fyrir að hafa hlotið ágætis einkunn á stúdentsprófi.

Fjölmargir afmælisstúdentar voru viðstaddir athafnirnar, Bogi Ágústsson, fyrrverandi fréttastjóri hélt tölu fyrir hönd 50 ára stúdenta sem vakti mikla lukku. Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir hélt ræðu fyrir hönd 25 ára stúdenta og gaf nýstúdentum heilræði fyrir framtíðina.

Elísabet Siemsen, rektor skólans brautskráði nú stúdenta í síðasta sinn en hún mun láta af störfum að sumri loknu eftir 45 ára farsælan feril innan framhaldsskólakerfisins. Í ávarpi hennar koma fram að þrátt fyrir að heimsfaraldur hafi nokkuð litað skólastarfið hjá þeim nemendum sem nú eru að útskrifast hafi þeim tekist að stunda nám sitt af alúð og uppskera nú ríkulega. Þá gerði Elísabet húsnæðismál skólans að umtalsefni enda neyddist skólinn til að loka Casa Christi í vetur. Þrátt fyrir mjög þröngan húsakost tókst að halda úti kennslu í öllum bekkjum. Elísabet gat þess einnig að nú væru bjartari tímar framundan enda hefur skólinn fengið til afnota húsnæði í Austurstræti sem mun verða tilbúið undir kennslu í haust.

En það var ekki aðeins Elísabet rektor sem var að kveðja skólann. Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor skólans lætur nú af störfum sem kennari en samanlagður starfsaldur hans við MR telur nú 50 ár.

Við óskum öllum nýstúdentum innilega til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis við nám og störf í framtíðinni.