Um einkunnir og próf

 1. Almenn ákvæði

1.1. Menntaskólinn í Reykjavík er bekkjaskóli og námsmat hans lýtur þeim ákvæðum Aðalnámskrár framhaldsskóla sem eiga við um slíka skóla.

 1. Um próftökutímabil og lengd prófa

2.1. Tvö próftímabil eru í öllum bekkjum, jólapróf og vorpróf, og fara þau fram í desember og apríl-maí.

2.2. Jólapróf og vorpróf, önnur en stúdentspróf, eru oftast 1½ klst.  Endurtökupróf eru 2½ klst.  Stúdentspróf eru yfirleitt 2 klst. ef prófað er úr einu námsári, en oftast 3 klst. ef námefnið nær yfir 2 ár eða fleiri.  Að auki eru munnleg próf í sumum greinum.

 1. Um námsmat og einkunnakvarða á 4. og 5. bekk (á ekki við um stúdentspróf)

3.1. Lokaeinkunn í hverri grein er meðaltal jólaprófseinkunnar, vorprófseinkunnar og námseinkunnar (árseinkunnar). Námseinkunn (árseinkunn) er gefin í öllum greinum fyrir frammistöðu í kennslustundum, í skriflegum æfingum (prófum) og fyrir almenna ástundun nemandans. Sjá sérstaklega ákvæði í grein 3.1 í kaflanum Reglur um skólasókn.

Hjá nemendum, sem fá ekki námseinkunn (árseinkunn) í tiltekinni grein (t.d. óreglulegum eða utan skóla), er lokaeinkunnin meðaltal jólaprófs og vorprófs.

Varðandi lokaeinkunnir er einnig rétt að benda á ákvæði í grein 6.4.

3.2. Jólaprófs-, vorprófs- og námseinkunnir (árseinkunnir) í einstökum greinum eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10 en lokaeinkunn hverrar greinar er gefin í heilum og hálfum tölum frá 1 til 10.

3.3. Aðaleinkunn er vegið meðaltal lokaeinkunna að meðtalinni einkunn fyrir skólasókn (sjá nánar um hana í grein 1.3 í kaflanum Reglur um skólasókn). Aðaleinkunn er reiknuð að loknum vorprófum. Vægi einkunna fer eftir einingafjölda í hverri prófgrein. Ef gefnar eru fleiri en ein einkunn í grein skiptist einingafjöldinn milli þeirra. Skólasókn vegur tvær einingar. Lágmark aðaleinkunnar er 5,0. Þeir sem eru undir lágmarkinu 5,0 teljast fallnir.

3.4. Lágmark vorprófseinkunnar í námsgrein er 4.  Enn fremur verða samanlagðar einkunnir jólaprófs og vorprófs að vera 7 eða hærri.  Sé um tvö próf í námsgrein að ræða verða nemendur að ná framangreindu lágmarki í hvoru prófi til að standast greinina.

Sé nemandi undir lágmarki í þremur eða fleiri greinum telst hann fallinn. Ákvæði um þá, sem eru undir lágmarki í einni eða tveimur greinum en hafa aðaleinkunn 5,0 eða hærri, er að finna í grein 4.1.

3.5. Þó að vegið meðaltal einkunna á jólaprófi sé undir 5,0 verður nemanda leyft að sitja í skólanum á síðara misseri .

3.6. Ef nemandi endurtekur bekk getur hann sótt um til konrektors að sleppa þeim millibekkjagreinum sem hann hefur fengið lokaeinkunnina 7 eða hærra og í stúdentsgreinum 4 eða hærra.

 1. Um endurtökupróf í 4. og 5. bekk

4.1. Nemandi, sem hefur aðaleinkunn 5,0 eða hærri í lok skólaárs en hefur hlotið einkunn undir lágmarki í einni eða tveimur greinum (sbr. grein 3.4), hefur heimild til þess að þreyta endurtökupróf úr námsefni alls vetrarins við lok skólaárs. Einkunnir í endurtökuprófum eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10 og er lágmarkseinkunn á hverju endurtökuprófi 4. Standist nemandi endurtökupróf hefur hann öðlast rétt til að flytjast milli námsára. Nemandi telst fallinn á árinu ef hann mætir ekki í endurtökupróf.

Falli nemandi á einu endurtökuprófi, þá er heimilt að flytja hann á milli bekkja einu sinni á námsferlinum ef einkunnin er ekki lægri en 2 og námsgreinin er ekki aðalgrein á námsbraut hans (sjá grein 5.1).

Eftirfarandi ákvæði gildir um nemendur 4. bekkjar náttúrufræðibrautar:  Ef þeir hafa fallið í lesinni eða ólesinni stærðfræði og staðist önnur endurtökupróf og vegið meðaltal af lesinni stærðfræði (1/3) og ólesinni stærðfræði (2/3) er a.m.k. 4 geta þeir óskað eftir því að setjast í  5. bekk náttúrufræðideildar II en ekki aðrar deildir.

4.2. Eftir einkunnaafhendingu að vori þurfa nemendur sjálfir að átta sig á stöðu sinni hvað varðar endurtökukvaðir og bera alla ábyrgð á því. Nemendum ber sjálfum að fylgjast með því hvenær endurtökupróf eru haldin og mæta tímanlega í þau.

 1. Færsla á milli brauta

Eftirfarandi ákvæði gildir um nemendur 4. bekkjar: Ef nemandi á málabraut óskar eftir að færa sig yfir á náttúrufræðibraut þarf hann að þreyta próf í stærðfræði og efnafræði. Sömuleiðis þarf nemandi á náttúrufræðibraut sem óskar eftir færslu yfir á málabraut að þreyta próf í ensku og latínu. Nemendur sem sækja um færslu á málabraut í lok 4. bekkjar þurfa að auki að bæta við sig 5 einingum í dönsku.

 1. Um aðalnámsgreinar

6.1 Eftirfarandi greinar teljast aðalnámsgreinar á brautum í Menntaskólanum í Reykjavík, sbr. grein 4.1.:

Málabraut Náttúrufræðibraut
4. bekkur 1. Íslenska

2. Enska

1. Íslenska

2. Stærðfræði

5. bekkur 1. Íslenska

2. Enska

3. Latína (fornmálad.) /

þriðja mál (nýmálad.)

1. Íslenska

2. Stærðfræði

3. Eðlisfræði (eðlisfræðid.) /

líffræði (náttúrufræðid.)

 1. Um stúdentspróf

7.1. Stúdentspróf eru skrifleg yfirlitspróf. Að auki eru munnleg próf í sumum greinum.

7.2. Einkunnir á stúdentsprófum eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 1 til 10.  Aðaleinkunn á stúdentsprófi er reiknuð þannig: Reiknað er vegið meðaltal námseinkunna (árseinkunna) og vegið meðaltal prófseinkunna.  Meðaltal þessara tveggja talna er aðaleinkunn á stúdentsprófi. Vægi einkunna fer eftir heildareiningafjölda í greininni öll námsárin þrjú. Ef gefnar eru fleiri en ein einkunn í grein skiptist einingafjöldinn milli þeirra.

Námseinkunn er gefin að vori í öllum stúdentsprófsgreinum og er þar tekið tillit til einkunna nemenda á jólaprófi og frammistöðu og ástundunar um veturinn.

Fái nemandi ekki námseinkunn í tiltekinni grein (t.d. ef hann er óreglulegur) hefur prófseinkunnin yfirleitt tvöfalt vægi (þ.e. prófseinkunnin reiknast líka sem námseinkunn).

Hjá nemendum, sem ljúka stúdentsprófi utan skóla, reiknast aðaleinkunnin einvörðungu sem vegið meðaltal prófseinkunna.

Hafi nemandi fengið námsgrein metna úr öðrum skóla án einkunnar reiknast hún ekki inn í aðaleinkunn.

7.3. Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þegar hann hefur gengist undir lokapróf í öllum námsgreinum sínum og fullnægt eftirfarandi lágmarkskröfum um einkunnir:

-Aðaleinkunn að lágmarki 5,0.

-Prófseinkunn í hverri grein ekki lægri en 4 (3,5 er námundað í 4 og telst þar með náð).

Nemandi telst hafa lokið stúdentsprófi þótt tvær prófseinkunnir séu undir ofangreindu lágmarki en þó ekki lægri en 2 (1,5 er námundað í 2).

Ef fall í einni námsgrein kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast með lokapróf skal leyfa honum að endurtaka próf í þeirri námsgrein í lok skólaársins.

7.4. Eftirfarandi greinum lýkur með stúdentsprófi í 4. og 5. bekk:

Grein                                                       Bekkur

Jarðfræði                                                4. bekkur

Danska                                                    4. bekkur

Tölvufræði                                              4. bekkur

Eðlisfræði                                               5. bekkur náttúrufræðideilda

Enska og 3. mál                                      5. bekkur náttúrufræðibrauta

Málvísindi                                               5. bekkur fornmáladeilda

Latína                                                      5. bekkur nýmáladeilda

Efnafræði                                                5. bekkur eðlisfræðideilda

Stærðfræði                                             5. bekkur málabrauta

Í 4. og 5. bekk er stúdentsprófseinkunnin lokaeinkunn í viðkomandi grein og reiknast því inn í aðaleinkunn (sjá grein 3.3). Stúdentsprófseinkunn færist þannig beint í lokaeinkunnadálkinn en ekki vorprófsdálkinn.

 1. Um veikindi í prófum

8.1. Veikindi þá daga, er próf fara fram, skal skrá að morgni prófdags í gegnum INNU. Þeir nemendur, sem koma ekki til prófs og boða ekki lögmæt forföll hafa ekki rétt á sjúkraprófi.

 1. Um undanþágu frá prófum í 4. og 5. bekk

9.1. Sé vegið meðaltal jólaprófseinkunna 8,5 eða hærra (án skólasóknar) og skólasókn óaðfinnanleg á haustmisseri (a.m.k. 95%) getur nemandi sótt um það að verða undanþeginn vorprófum öðrum en stúdentsprófum. Umsóknarferli fer fram í marsmánuði nánari dagsetning er kynnt ár hvert. Skólinn getur aðeins veitt slíkt leyfi einu sinni á ferli nemandans og er leyfið háð því að vegið meðaltal námseinkunna sé ekki lægra en 8,5 og skólasókn óaðfinnanleg á vormisseri (a.m.k. 95%). Skólinn afgreiðir slíkar umsóknir eftir að námseinkunnir eru birtar. Ef nemandi fær undanþágu frá vorprófum þarf hann samt sem áður að taka próf í þeim greinum þar sem meðaltal jólaprófs og námseinkunnar er lægra en 8.0. Á náttúrufræðibraut í 4. bekk er hvorki hægt að sækja um undanþágu frá vorprófum í líffræði og efnafræði né í stærðfræði á málabraut í 4. bekk.

 1. Um nemendur með sértæka námsörðugleika og fleiri sértilvik

10.1. Nemendur, sem greinst hafa með sértæka námsörðugleika, geta sótt um það til námsráðgjafa að fá sérrúrræð í jóla- og vorprófum. Hér er hægt að sjá reglur um sérúrræði.

 1. Próftökureglur

11.1. Nemendum ber að mæta tímanlega til prófs. Upplýsingar um skipan nemenda í stofur í prófunum er jafnan að finna á upplýsingatöflu í anddyri Skólahússins og ber nemandi ábyrgð á að kynna sér það. Nemendum ber einnig að fylgjast með hvenær sjúkrapróf eru haldin, ef um slíkt er að ræða.

11.2. Nemandi sem mætir of seint til prófs á ekki rétt á framlengingu próftíma.

11.3. Nemendum er með öllu óheimilt að fara inn í prófstofur fyrir upphaf prófs.

11.4. Prófgæslumenn ráða sætaskipan nemenda í prófi og er nemendum óheimilt að helga sér sérstök sæti.

11.5. Til próftöku þarf nemandi ekki neitt annað en skriffæri sín (auk leyfðra hjálpargagna í einstökum prófum). Nemendur hengja yfirhafnir á snaga eða fatahengi sem í stofunni eru og leggja þar undir poka eða töskur sem þeir kunna að hafa.

11.6. Ekki má hafa neitt á prófborði annað en skrifföng og prófgögn. Pennaveski eiga að vera á gólfi við hlið borðsins.

11.7. Nemendur skulu slökkva á farsímum og setja á gólf við hlið borðsins. Bannað er að hafa farsíma og snjallúr á sér í prófi. Ef nemandi er staðinn að því að vera með farsíma eða snjallúr á sér er það jafngilt prófsvindli.

11.8. Algjör þögn og ró skal ríkja í prófsal.

11.9. Óheimilt er að skila úrlausn fyrr en liðnar eru 60 mínútur af próftímanum. Nemendur geta ekki hafið próftöku að þeim tíma liðnum.

11.10. Ef nemandi skilar prófi áður en próftíma lýkur og yfirgefur prófstofu, skal hann sýna tillitssemi og gæta þess í hvívetna að valda ekki ónæði. Nemendum er óheimilt að dvelja framan við prófstofur eða annars staðar þar sem þeir geta valdið ónæði meðan próf stendur yfir.

11.11. Nemandi, sem staðinn er að svindli í prófi, fær einkunnina 1 í þeirri námsgrein sem um ræðir og sætir sérstökum úrræðum.

11.12. Ítrekuð brot á próftökureglum geta valdið brottrekstri úr skóla.

 1. Um prófsýningu, birtingu einkunna, varðveislu prófúrlausna og fleira

12.1. Um prófsýningu, birtingu einkunna, varðveislu prófúrlausna, ágreining um námsmat, meðferð mála og meðferð persónuupplýsinga vísast til ákvæða í greinum 11.1, 11.2 og 11.4 í Aðalnámskrá framhaldsskóla.

12.2. Óski nemandi eftir gögnum tengdum námsframvindu hans (t.d. ljósriti af prófúrlausnum eða prófverkefnum) skal gera það skriflega á mr@mr.is. Skólinn áskilur sér rétt til sanngjarnrar gjaldtöku fyrir slíka þjónustu.

12.3. Nemendur fá aðgang að Innu, upplýsingakerfi framhaldsskólanna, og geta þar fylgst með námsferli sínum. Slóðin er inna.is.

Reykjavík, 20. september 2022.

Sólveig Guðrún Hannesdóttir

rektor