Menntaskólinn í Reykjavík á sér afar langa skólahefð og hefur í aldanna rás m.a. ýmist verið kallaður Lærði skólinn, Reykjavíkurskóli, Latínuskólinn eða, upp á latínu, Schola Reykjavicensis en núverandi nafn sitt fékk skólinn 1937.

Skólahald hófst á núverandi stað í miðbæ Reykjavíkur árið 1846 í því húsi sem í daglegu tali nefnist gamli skóli. Fleiri byggingar hafa bæst við og fer starfsemi hans nú fram í mörgum húsum á reit, sem afmarkast af Lækjargötu, Þingholtsstræti, Amtmannsstíg og Bókhlöðustíg.

Skólinn hefur ávallt kappkostað að gera nemendur sína sem hæfasta til að stunda háskólanám og veitt þeim haldgóða menntun sem nýtist þeim hvert sem leið þeirra liggur að loknu stúdentsprófi. Svo að vel megi takast þurfa skólinn og nemendur hans jafnan að gera til sín miklar kröfur og setja markið hátt.

Menntaskólinn í Reykjavík er bóknámsskóli með bekkjakerfi þar sem hver bekkur hefur sína heimastofu. Skólinn býður upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Hann skiptist upp í tvær meginbrautir, náttúrufræðibraut og málabraut, sem greinast í samtals átta deildir, þ.e. sú fyrrnefnda í  náttúrufræði- og eðlisfræðideild I og II, en sú síðarnefnda í fornmála- og nýmáladeild I og II.

Tvö nemendafélög starfa við skólann og standa fyrir fjölbreyttum viðburðum. Nemendur skólans eru einnig duglegir að taka þátt í ýmis konar keppnum í tengslum við nám sitt.