Menntaskólinn í Reykjavík hefur það að markmiði að efla alhliða þroska nemenda og undirbúa þá til að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi framtíðarinnar. Einn af máttarstólpum þessa undirbúnings er að hvetja nemendur til árvekni í umhverfismálum, efla umhverfisvitund þeirra og frumkvæði til úrbóta. Menntaskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að sjónarmið umhverfisverndar og sjálfbærni séu fléttuð inn í allan rekstur skólans, þar með talið námsefni þar sem við á og að umhverfisverndarsjónarmiðum séu gerð glögg skil.

Menntaskólinn í Reykjavík tekur þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri með eftirfarandi að markmiði:

  • Að draga markvisst úr kolefnislosun.
  • Að hafa jákvæð áhrif á vistvæna þróun.
  • Að hafa óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands og þannig taka virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.
  • Að auka vellíðan starfsmanna.
  • Bæta starfsumhverfið.
  • Draga úr rekstrarkostnaði.
  • Innleiða áherslur í umhverfismálum og gera skólann umhverfisvænni.
  • Gera aðgerðir skólans í umhverfismálum sýnilegar.

 

Leiðir

Innkaup

  • Við notum einvörðungu umhverfisvænar ræstivörur.
  • Við kaupum einungis umhverfisvottaðan prentpappír (umhverfismerki, type 1).
  • Við kaupum raftæki sem eru í A-flokki orkumerkinga eða hærra skv. orkuflokkum Evrópusambandsins.
  • Við bjóðum starfsmönnum upp á fjölnota innkaupapoka á skrifstofu.

 

Pappírsnotkun

  • Prentun á báðar hliðar og í svart-hvítu er sjálfgild stilling á tölvum.
  • Við prentara og ljósritunarvélar er pappír safnað saman og hann nýttur sem rissblöð.
  • Dregið verði úr pappírsútgáfum þar sem öll rit, skýrslur og annað útgefið efni fer jafnóðum á vef skólans.
  • Fjöldapóstur sé sendur rafrænt, í stað þess að senda út bréf, þegar því verður við komið.
  • Við útgáfu kynningarefnis og annars efnis bjóðum við ávallt upp á rafræna útgáfu sem lesendur geta valið í stað pappírsútgáfu.

 

Orkunotkun

  • Við kaupum einungis umhverfisvottaðan prentpappír (umhverfismerki, type 1).
  • Ljósritunarvélar og prentarar eru stillt þannig að tækin fara í viðbragðsstöðu (standby) þegar þau hafa ekki verið í notkun í 20 mín.
  • Við notum ekki skjáhvílur (screensaver).
  • Við slökkvum á öllum ljósum í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós í lok dags. Sérstaklega er hugað að fundarherbergjum, geymslum og þar sem dagsbirtu nýtur við.
  • Við höfum komið fyrir áminningarmiðum við rofa og valdar útgönguleiðir þar sem minnt er á að slökkva ljós í lok dags og á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun.
  • Við endurnýjun eru ávallt valdar perur/lýsing með bestu orkunýtni s.s. LED.
  • Reynt er að njóta dagsbirtunnar með því að slökkva ljósin þegar bjart er úti.

 

Flokkun úrgangs

  • Við flokkum að lágmarki í átta úrgangsflokka (t.d. lífrænt, spilliefni, pappír, plast, skilagjaldsumbúðir, bylgjupappa, málma, raftæki og gler) á kaffistofum, í mötuneytum og annars staðar þar sem úrgangur fellur til.
  • Pappír er flokkaður á eftirfarandi hátt:
    • Hvítur pappír úr prenturum og ljósritunarvélum, umslög o.fl. Hefti má fylgja.
    • Dagblöð, tímarit, bæklingar og auglýsingapóstur. Hefti, bréfaklemmur og smærri gormar mega fara með.
    • Hreinar og tómar umbúðir úr sléttum pappa s.s. kexpökkum, kössum utan af tei og fl. Plast utan um umbúðir er fjarlægt.
    • Hver og einn starfsmaður og nemandi setji bylgjupappa svo sem pappakassa og pítsukassa í pappagám á skólalóð.
  • Skilagjaldskyldar umbúðir svo sem áldósir, plastflöskur og glerflöskur eru flokkaðar og farið með í endurvinnslu.
  • Við flokkum spilliefni eins og lög og reglur kveða á um, s.s. rafhlöður, prenthylki, málningarafganga, flúrperur og skilum til ábyrgrar förgunar.
  • Rafhlöður – Starfsfólk á skrifstofu tekur á móti þeim og sér um að skila þeim til Efnamóttökunnar hf.
  • Mótttökustöð fyrir önnur spilliefni er hjá umsjónarmanni fasteigna í Fjósi.
  • Tóner og prenthylki eru sett í sérstakt ílát í ljósritunarherbergi til meðhöndlunar sem  spilliefni.
  • Trúnaðargögn – Hver og einn starfsmaður setur trúnaðargögn m.a. viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar, prófgögn og fjármálaupplýsingar í tætara eða í förgunartunnu fyrir trúnaðargögn sem farið er með í gagnaeyðingu.

 

Samgöngur

  • Það eru yfirbyggð hjólastæði fyrir starfsmenn og nemendur skólans.
  • Við hvetjum starfsmenn og nemendur til að nýta sér umhverfisvænan ferðamáta til og frá skólanum.

 

Stefnan var síðast yfirfarin í október 2023