Menntaskólinn í Reykjavík

Ekki verður tekið við fleiri skráningum á algebrunámskeið sem haldið verður í ágúst. Við þökkum mjög góðar viðtökur við þessu gagnlega námskeiði. 

Skólinn hefur fengið Nordplus styrk úr menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar. Styrkurinn er veittur vegna samvinnuverkefnis MR og menntaskólans í Røros, Noregi. Í verkefninu munu nemendur velta fyrir sér móðurmálum sínum og lesa bæði Íslendingasögur og nýrri bækur. Einnig verður tækifæri til að kynnast samísku og kynnast sögu Sama í Noregi þar sem að í norska skólanum er rekið suðursamískt menningarsetur. 

Skrifstofa skólans er lokuð og opnar aftur 5. ágúst.  Bóksala skólans opnar 12. ágúst. 

Gleðilegt sumar 

Innritun nýnema fyrir skólaárið 2020-2021 er lokið. Alls voru 248 nýnemar innritaðir í 10 bekki; 2 málabekki og 8 náttúrufræðibekki. Hér er hægt að nálgast bréf til nýnema með upplýsingum um skólabyrjun. 

Við bjóðum alla nýnema hjartanlega velkomna í skólann og hlökkum til að sjá alla í haust. 

Þær Matthildur María Magnúsdottir 5.M, María Vigdís Sanchez-Brunete 5.M og Ísafold Kristin Halldorsdottir 5. Z. sigruðu í myndbandasamkeppni á frönsku. Myndband sem þær gerðu fjallaði um Jörðina og Manninn. Verðlaun frá Franska sendiráðinu voru veitt við smá athöfn í Alliance francaise í gær. Verðlaunin voru gjafabréf, út að borða á veitingastaðnum Bistro. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn. 

Menntaskólinn í Reykjavík býður upp á sumarnámskeið í algebru, þetta námskeið er hluti af menntaúrræði stjórnvalda vegna Covid-19. Námskeiðið er stendur öllum tilvonandi og núverandi framhaldsskólanemendum til boða sem hafa áhuga á að styrkja sig í algebru.

Kynningarmyndband um námskeiðið

Sumir byrja í framhaldsskóla og skilja ekki af hverju þeir eru ekki lengur góðir í stærðfræði; sumir fá þessa tilfinningu í efri bekkjum grunnskóla. Ástæðan gæti verið að nokkuð vanti upp á algebruna. Reynslan sýnir að traustur grunnur í algebru er lykillinn að farsælu námi í stærðfræði og tengdum greinum.

Nemendur sem eru sterkir í algebru eru fljótir að tileinka sér nýja stærðfræði og hafa frelsi til að velja þá braut sem þeim helst hugnast. Nemendur sem eru veikir í algebru lenda frekar í harki og erfiðleikum og gætu endað á því að mála sig út í horn.

Menntaskólinn í Reykjavík býður upp á námskeið til að styrkja grunn í algebru. Námið verður að mestu leyti fjarnám og fer fram dagana 4. - 14.ágúst. Nemendur hafa aðgang að upptökum með útskýringum ásamt sýnidæmum. Námið felst í að reikna nokkurn fjölda dæma á hverjum degi.

Tveir reynslumiklir stærðfræðikennarar sjá um kennsluna og verða virkir á fjarkennslukerfi meðan á námskeiðinu stendur. Nemendur fá því hér gott tækifæri til að bæta algebruþekkingu sína og styrkja þar með til muna möguleika sína á árangursríku námi í framhaldsskóla.

Innritunargjald er 3.000 krónur sem eru endurgreiddar þegar nemandi hefur staðist námskeiðið.

Til að innrita sig á námskeiðið þarf að senda upplýsingar um nafn nemanda, kennitölu, netfang og símanúmer á netfangið:  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Aðalfundur Hollvinafélags MR verður haldinn miðvikudaginn 3. júní kl. 17:00. Á fundinum verða venjuleg aðalfundarstörf og stjórn kjörin. Stjórnina skipa nú Halldór Kristjánsson formaður og meðstjórnendur eru Brynjólfur Jónsson, Kristín Heimisdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Laufey Gunnarsdóttir, Ólafur Stephensen, Ólafur Þorsteinsson, Svana Helen Björnsdóttir og Yngvi Pétursson.  Skoðunarmenn eru: Árni Indriðason, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson.

Dagskrá fundarins og fundarboð má lesa (og prenta) með því að smella hér. Reikningar félagsins verða birtir fljótlega.

Menntaskólanum í Reykjavík var í gær slitið í 174. skiptið. Brautskráning 212 stúdenta var að þessu sinni með óvenjulegu sniði vegna ástandsins sem Covid-19 hefur skapað í samfélaginu. Tvær athafnir voru haldnar og hópum nýstúdenta skipt í tvennt en með því tókst að tryggja að nánustu aðstandendur þeirra gætu verið viðstaddir.

Að venju skemmtu nemendur úr röðum stúdenta gestum með  tónlistaratriðum ásamt því að fulltrúar afmælisstúdenta ávörpuðu gesti; þær Ísold Uggadóttir fyrir hönd 25 stúdenta og Sigríður Hlíðar fyrir hönd 50 ára stúdenta. Ómar Ragnarsson, fulltrúi 60 ára stúdenta kom öllum á óvart og færði fyrir hönd síns árgangs skólanum að gjöf lag og texta sem hann frumflutti með aðstoð stúdenta og gesta í sal.

Fjöldi nemenda hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur en nemendur með ágætiseinkunn voru 28 að þessu sinni. Dúx skólans var Katla Rut Robertsdóttir Kluvers en hún brautskráðist af Náttúrufræðibraut I með einkunnina 9,84. Semidux var Tómas Helgi Harðarson með 9,82 í meðaleinkunn.

Í ávörpum sínum gerði Elísabet Siemsen rektor þennan óvenjulega vetur að umtalsefni og þakkaði nemendum og starfsfólki fyrir þá einurð og útsjónarsemi sem þessir aðilar sýndu eftir að skólanum var breytt í fjarnámsskóla á einni kvöldstund í mars, án þess að það bitnaði á framvindu náms og kennslu.

Þá þakki rektor Helga Ingólfssyni sögukennara fyrir vel unnin störf en hann hverfur nú frá skólanum eftir tæplega fjögurra áratuga starf.