Markmið jafnréttisáætlunar Menntaskólans í Reykjavík er að stuðla að jafnrétti kynjanna og tryggja jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans. Í öllu skólastarfi verði unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kvenna og karla. Í starfsmannastefnu skólans skulu jafnréttismál vera stöðugt höfð í huga.

Jafnréttisnefnd

Jafnréttisnefnd Menntaskólans í Reykjavík var skipuð til tveggja ára í október 2019. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála í Menntaskólanum í Reykjavík, móta stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa skólans.
Nefndin er einnig ráðgefandi fyrir yfirstjórn skólans við samningu á starfsmannastefnu. Í starfi sínu hefur nefndin til hliðsjónar jafnréttisáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis og Stjórnarráðs og lög og reglugerðir sem við eiga. Í jafnréttisnefnd sitja:

 • Einar Hreinsson, konrektor, fulltrúi í jafnréttisnefnd
 • Guðjón Ragnar Jónasson, kennari, fulltrúi í jafnréttisnefnd
 • Ásdís Auðunsdóttir, kennari, fulltrúi í jafnréttisnefnd
 • Jóhanna Katrín Eggertsdóttir, kennari, fulltrúi í jafnréttisnefnd
 • Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir, nemandi, fulltrúi í jafnréttisnefnd
 • Baldur Reykdal, nemandi, fulltrúi í jafnréttisnefnd

Jafnréttisnefnd er árlega með upplýsingafund með stjórnendum annars vegar og starfsfólki hins vegar. Slíkir fundir eru haldnir í febrúar og/eða mars ár hvert.

Jafnréttisfulltrúi

Jafnréttisfulltrúi skólans er Guðjón Ragnar Jónasson. Hlutverk jafnréttisfulltrúa er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi í skólanum. Hann sendir mennta- og menningarmálaráðuneyti árlega greinagerð um jafnréttisstefnu skólans.

Áhersluatriði jafnréttisáætlunar skólans

1. Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Kynjajafnréttis sé gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda, beinna og/eða óbeinna. Einnig skulu kynin njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár sbr. 19. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

 • Markmið: Markmið MR er að ekki mælist neinn kynbundinn launamunur, en þó þannig að vikmörk í launagreiningu sé aldrei meiri en +/-2%.
 • Ábyrgð: rektor, jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd.
 • Aðgerð: Að MR fari í gegnum jafnlaunavottunarferli í febrúar 2020 og árlega skoðun á því hvort skilyrði vottunarinnar séu fyrir hendi.
 • Eftirfylgni: Í framhaldi af jafnlaunavottun og setningu jafnlaunastefnu skal jafnréttisnefnd stuðla að því að ferlið og niðurstöður þess séu kunnar öllum starfsmönnum og koma tillögum til úrbóta til rektors ef það á við.

2. Auglýst störf á vegum skólans og tölfræðilegar upplýsingar

Í auglýsingum skulu störf vera ókyngreind og höfða til beggja kynja. Þegar birtar eru tölfræðilegar upplýsingar á vegum skólans skulu þær jafnan kyngreindar, eftir því sem við á.

3. Stöðuveitingar og störf

Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í störfum innan skólans. Þess verði gætt við úthlutun verkefna og tilfærslu í störfum. Jafnframt bjóðist jöfn tækifæri til að axla ábyrgð og njóta framgang í störfum.

Fjöldi starfsmanna haustið 2019 er 77, 63 kennarar, 2 fulltrúar á skrifstofu, 1 hjúkrunarfræðingur, 1 húsvörður, 2 náms og starfsráðgjafar, 2 í mötuneyti, verkefnastjóri, fjármálastjóri, rektor og konrektor. Kynjaskipting í kennslu er 34 konur (55%) og 28 karlar (45%). Kynjahlutfall yfirstjórnar er 80% konur og 20% karlar. Heildarskipting milli kynja sem starfa við MR er 55% konur og 45% karlar.

 • Markmið: að hlutfall karla og kvenna sé svipað í sambærilegum störfum.
 • Ábyrgð: rektor og konrektor.
 • Aðgerð: að taka saman kynjahlutföll í öllum starfshópum.
 • Eftirfylgni: ár hvert kynnir jafnréttisnefnd starfsfólki stöðuna, aldrei síðar en í mars ár hvert.

4. Starfsþjálfun og endurmenntun

Tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi.

 • Markmið: að karlar og konur njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar.
 • Ábyrgð: rektor og konrektor.
 • Aðgerð: að taka saman upplýsingar um þátttöku í starfsþjálfun og endurmenntun flokkaða eftir kyni sem verði kynnt jafnréttisnefnd.
 • Eftirfylgni: jafnréttisnefnd fer ár hvert yfir stöðu mála, aldrei síðar en í mars ár hvert.

5. Þátttaka í ráðum og nefndum

Unnið skal markvisst að því að jafna fjölda kvenna og karla í ráðum og nefndum á vegum skólans. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir og ráð skal farið fram á að tekið sé mið af 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, en þar segir:

Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.

 • Markmið: að hlutfall karla og kvenna sé jafnt í vinnuhópum, ráðum og nefndum á vegum skólans. Ábyrgð: rektor, konrektor og jafnréttisfulltrúi.
 • Aðgerð: að jafnréttisfulltrúi afli upplýsinga um hlutfall kynja í nefndum og ráðum og kynni jafnréttisnefnd stöðu mála.
 • Eftirfylgni: jafnréttisnefnd kynnir yfirstjórn og starfsfólki stöðuna ár hvert, aldrei síðar en í mars ár hvert

6. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Leitast er við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið.

Markmið: að konur og karlar geti samræmt starfsskyldur og skyldum gagnvart fjölskyldu.
Ábyrgð: rektor og konrektor.
Aðgerð: að jafnréttisnefnd kanni stöðuna ár hvert, formlega eða óformlega.
Eftirfylgni: sjónarmið jafnréttisnefndar er kynnt fyrir rektor ef nefndin telur að aðgerða sé þörf.

7. Kynferðisleg, kynbundin áreitni og kynbundið ofbeldi

Allir nemendur og starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða ofbeldi, eins og skilgreint er í lögum nr. 10/2008.

 • Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
 • Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu viðkomandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
 • Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
 • Markmið: að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynferðislega og kynbundna áreitni. Að til sé til staðar skrifleg áætlun um um aðgerðir fram kemur kvörtun/ábending/rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreitni eða ofbeldi
 • Ábyrgð: allt starfsfólk ber ábyrgð á að koma í veg fyrir og uppræta kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Rektor ber ábyrgð á úrlausn, en jafnréttisfulltrúi á kynningu.
 • Aðgerð: telji nemendur eða starfsfólk sig verða fyrir kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni má t.d. leita til trúnaðarmanna eða jafnréttisfulltrúa.
 • Forvarnir: kynna áætlun skólans gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi fyrir nemendum og starfsfólki. Kynna hana fyrir nýjum nemendum þegar þeir hefja nám við skólann og nýju starfsfólki þegar þau hefja störf.
  Eftirfylgni: áreitni getur varðað tilfærslu í starfi og eða áminningu. Bregðast við slíkum málum í samræmi við skriflega áætlun um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og/eða ofbeldi.

8. Starfsandi og líðan starfsmanna

Lögð er áhersla á góða líðan starfsmanna og góðan starfsanda í skólanum. Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og þeir sæti ekki kynferðislegri áreitni, einelti né öðru ofbeldi. Það sama gildir um samskipti kennara og nemenda.

9. Jafnrétti í skólastarfi

Öllum nemendum sem sækja um skólavist við Menntaskólann í Reykjavík og uppfylla inntökuskilyrði standa allar brautir og deildir skólans til boða. Á haustmisseri 2018 var skipting nemenda eftir kyni eftirfarandi:

Námsráðgjöf skólans miðast við að nemendum bjóðist nám eftir áhuga þeirra og getu, óháð kyni. Allir nemendur á fyrsta ári fá kennslu í lífsleikni, en þar fá nemendur meðal annars fræðslu um kynjafræði. Kennarar skólans reyna að velja námsefni og nota þannig kennsluaðferðir að bæði kynin fái að njóta sín og jafnframt eru kennarar meðvitaðir um að velja námsefni þannig að ekki halli á annað kynið.

 • Markmið: að öllum nemendum óháð kyni standi allar brautir og deildir skólans til boða, standist þeir inntökuskilyrði.
 • Ábyrgð: rektor og konrektor.
 • Aðgerð: að funda reglulega með starfsmönnum um jafnréttismál.
 • Eftirfylgni: að kanna hvort kennarar hafi sett umræðu um jafnrétti inn í námsefnið.

Endurskoðun og samþykkt

Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þar sem kveðið er á um að leggja beri áherslu á að tryggja konum og körlum jafnan rétt. Jafnframt skulu jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Jafnréttisáætlun þessi var endurskoðuð í desember 2019.