Starfsbraut er ætluð nemendum sem stundað hafa nám í sérdeildum grunnskóla eða notið mikillar sérkennslu á grunnskólastigi.

Námið við brautina er í 4 ár.  Markmið starfsbrautarinnar er að auka hæfni og getu nemenda til að takast á við verkefni daglegs lífs, vinnu, tómstunda og áframhaldandi náms.  Lögð er áhersla á að efla sjálfstæði nemenda, auka félagsleg samskipti og taka þátt í fjölbreyttu náms- og félagsstarfi innan skólans.

Lagt er uppúr því að mæta nemendum á þeirra forsendum og vinna með þeim að því að skapa umhverfi þar sem þeim líður vel, upplifa sig örugg og skapa tækifæri til náms. Við leggjum áherslu á að sýna umhyggju og kærleika, stuðla að þátttöku nemenda og auka færni.

Nemendur hafa einstaklingsmiðaðar námsskrár, en við brautina eru kenndar bóklegar greinar, svo sem stærðfræði, enska og náttúrufræði, með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti og nálgun sem hentar hverjum nemanda.  Tölvufræði er kennd á fyrsta ári og íþróttir öll árin.

Kennsla við starfsbraut fer fram í Casa Nova, íþróttahúsi, tölvufræðistofu og öðrum stofum skólans eftir því sem við á, auk þess nýta kennarar nær umhverfi skólans, miðbæ Reykjavíkur, til ýmissa vettvangsferða.

 

Starfsbrautarstjóri er Margrét Sara Guðjónsdóttir, margretsara@mr.is