Innritun fer fram á vorin í gegnum Menntagátt Menntamálastofnunar.
Við innritun nýnema, sem lokið hafa námi úr grunnskóla, verður fyrst litið til einkunna á grunnskólaprófi í íslensku, ensku og stærðfræði og auk þess einkunnar í náttúrufræði hjá nemendum sem sækja um náttúrufræðibraut og einkunnar í dönsku (eða öðru Norðurlandamáli) hjá þeim sem sækja um málabraut. Einkunnir í fyrrnefndum kjarnanámsgreinum skulu vera B eða hærri.
Nemendur geta valið um að stunda nám á málabraut eða náttúrufræðibraut. Til að geta innritast er æskilegt að nemendur hafi hlotið a.m.k. einkunnina B+ í íslensku og ensku inn á málabraut og í íslensku og stærðfræði inn á náttúrufræðibraut.
Ef umsóknir verða fleiri en unnt verður að samþykkja verður umsóknum forgangsraðað með eftirfarandi hætti. Fyrst verða reiknuð stig á bak við hverja einkunn í fyrrgreindum námsgreinum skv. eftirfarandi töflu:
Einkunn | Stig |
A | 4 |
B+ | 3,75 |
B | 3 |
C+ | 2,75 |
C | 2 |
D | 1 |
Síðan verður fundin samtala stiga ofangreindra fjögurra námsgreina þar sem stig í tveimur námsgreinum fá tvöfalt vægi, í íslensku og ensku á málabraut og í íslensku og stærðfræði á náttúrfræðibraut. Umsóknum verður raðað eftir samtölunni sem þannig fæst. Til útskýringar reiknast t.d. stigatala hjá nemanda sem sækir um málabraut með B+ í íslensku og ensku og B í dönsku og stærðfræði með samtöluna 21. Aðrir þættir koma einnig til skoðunar við mat umsóknar, m.a. skólasókn, einkunnir í öðrum námsgreinum, búseta og önnur gögn sem umsækjandinn leggur fram, t.d. gögn sem staðfesta m.a. þátttöku í félagslífi, íþróttum, listnámi, öðru námi og einkunnir í samræmdum prófum í grunnskóla.
Skólinn býður upp á krefjandi bóknám og reynslan hefur sýnt að ætla megi að nemendur, sem eru með lægri einkunn en B+ í íslensku og ensku á málabraut eða í íslensku og stærðfræði á náttúrufræðibraut, séu líklegri til að eiga í erfiðleikum með að tileinka sér námið.
Gögn nemenda sem koma erlendis frá og hafa ekki vitnisburð frá íslenskum grunnskóla verða metin sérstaklega.
