Starfsmannastefna Menntaskólans í Reykjavík tekur til allra starfsmanna skólans. Markmið starfsmannastefnunnar er að skólinn gegni lögmæltu hlutverki sínu, eins og kveðið er á um í 2. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans. Starfsmannastefnan lýsir vilja skólans til að vera góður og eftirsóttur vinnustaður þar sem áhugasamt og hæft starfsfólk vinni að heilindum til að sinni þeirra kennslu-, fræðslu- og þjónustustarfsemi sem fer fram í skólanum. Starfsmannastefnunni er ætlað að tryggja starfsmönnum góð skilyrði til að sinna sínu starfi og gefa þeim möguleika á að þroskast í starfi.

Meginmarkmið starfsmannastefnunnar eru:

  • Menntaskólinn í Reykjavík vill ráða heiðarlegt og hæft starfsfólk sem vill leggja sitt af mörkunum til að efla skólastarfið
  • Áhersla er lögð á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum. Þeir skulu fá fræðslu um réttindi og skyldur sínar og um starfsemi skólans.
  • Skólinn leggur áherslu á að allir starfsmenn sinni endur-og símenntun eins og kveðið er á um í kjarasamningum. Starfsmönnum skal gefinn kostur á að sækja ráðstefnur og námskeið eftir því sem hægt er. Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim breytingum sem verða á starfi þeirra til dæmis vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar og vera reiðubúnir til að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Stjórnendur og starfsmenn bera ábyrgð á því að endurmenntun fari fram.
  • Starfsmannasamtöl skulu fara fram á hverju ári. Tilgangur þeirra er að vera vettvangur að samtali milli starfsmanna og stjórnenda, stuðla að velferð og bættum starfsárangri starfsmanna. Rektor ber ábyrgð á að starfsmannasamtöl séu skipulögð með faglegum hætti og að úrræði séu til staðar ef þeirra er þörf.
  • Jafnræðis og jafnréttis skal gætt í hvívetna, stjórnendur bera ábyrgð á því að jafnréttisáætlun sé framfylgt.
  • Allir starfsmenn skólans skulu vera kurteisir og háttvísir í framkomu hverjir við aðra og við nemendur. Starfsmenn skulu sýna hverjir öðrum virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.
  • Starfslýsingar skulu alltaf liggja fyrir og laun ákvörðuð með sanngjörnum hætti og í samræmi við jafnlaunastefnuna.
  • Skólinn skal leitast við að tryggja öllum starfsmönnum gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Öryggisnefnd Menntaskólans er til leiðbeiningar í þeim efnum. Starfsmenn skólans bera sjálfir ábyrgð á því að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um aðgætni í starfi.