Móttökuáætlun nemenda með annað móðurmál en íslensku

Í reglugerð númer 654 frá árinu 2009 er kveðið á um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í
íslensku, þ.e. nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku, eða hafa dvalist langdvölum
erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Skulu
framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Í
reglugerðinni er jafnframt kveðið á um tilhögun námsins og um námsmat.

Leiðarljós Menntaskólans í Reykjavík þegar kemur að kennslu nemenda með annað móðurmál en
íslensku er að efla málskilning þeirra og fá þá til að taka virkan þátt í skólasamfélaginu.
Megineinkenni skólans er bekkjarkerfi og oft myndast sterk félagsleg tengsl milli nemenda. Þessi
tengsl reynum við að nýta og vinnum þar eftir hugmyndafræði sem kennd hefur verið við
gagnkvæma aðlögun.

Móttökuáætlun Menntaskólans í Reykjavík byggist á reglugerð þeirri sem tiltekin var hér að ofan og
sérstöðu skólans sem einkum felst í bekkjarkerfinu þar sem reynt er að hagnýta gæði hinna nánu
tengsla.

Í Menntaskólanum í Reykjavík er ríkuleg áhersla lögð á að nemendur með annað tungumál en
íslensku eigi greiðan aðgang að náms- og starfsráðgjöf. Við MR starfar teymi sem heldur utan um
málefni þessara nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í því sitja námsráðgjafi, fagstjóri í
íslensku og kennari sá er annast kennslu íslensku sem annars máls. Teymið hittist í byrjun hvers
skólaárs. Áður en námið hefst kannar námsráðgjafi bakgrunn nemenda og safnar saman
upplýsingum er lúta að náms- og félagslegri stöðu þeirra. Þessi vinna er unnin í samstarfi við
grunnskólana enda markmiðið að mynda trausta brú milli skólastiganna.

Nemendum með annað móðurmál en íslensku eru tryggðir stoðtímar í íslensku og leitast er við að
nemendur fylgi námsefni síns bekkjar svo fremi sem því verði komið við. Stoðtímar eru skipulagðir
í upphafi hvers skólaárs og eru að stórum hluta einstaklingsmiðaðir og sniðnir að þörfum hópsins
hverju sinni. Í þeim er reynt að treysta málkunnáttu og hugtakaskilning með það fyrir augum að
styrkja nemendurna til frekara náms.

Í sumum tilvikum metur Menntaskólinn í Reykjavík móðurmál nemenda til eininga í stað annars
erlends tungumáls. Áhersla er á að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku tækifæri til
að viðhalda móðurmáli sínu enda traust undirstaða í móðurmáli mikilvægur grunnur þegar kemur að
námi í öðrum tungumálum