Skólareglur

Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Þeir fá ekki skotið sér undan brotum á skólareglum með skírskotun til vanþekkingar á þeim.

  1. Almennar reglur

1.1. Innan vébanda skólans gilda landslög sem skólareglur án þess að þeirra sé sérstaklega getið.

1.2. Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skal ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks. Háttvísi, prúðmennsku og gott siðferði ber að viðhafa í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans.

1.3. Ósæmileg hegðun nemanda gagnvart kennurum skólans, skólafélögum, starfsfólki skólans eða öðrum, innan skóla sem utan, getur varðað brottvísun úr skóla.

1.4. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta í hvívetna að varpa ekki rýrð á heiður hans.

  1. Ástundun og hegðun í tímum

2.1. Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega. Nánar er kveðið á um skólasókn í kaflanum Reglur um skólasókn.

2.2. Í kennslustundum skulu nemendur vera virkir, virða verkstjórn kennara og gæta þess að valda ekki ónæði.

2.3. Kennara er heimilt að vísa nemanda úr kennslustund að gefnu tilefni, t.d. fyrir að spilla vinnufriði. Ef slíkt kemur fyrir oftar en einu sinni skal kennari tilkynna það skólastjórnendum sem taka þá málið til meðferðar.

2.4. Notkun farsíma í kennslustundum er með öllu óheimil nema ef kennari ákveði annað. Slökkt skal vera á farsímum og þeir geymdir niðri í tösku. Ef farsími veldur röskun á kennslu er kennara heimilt að víkja nemanda úr tíma. Reglan nær einnig til allra tækja sem geta valdið tilefnislausu ónæði í kennslustundum.

  1. Umgengni

3.1. Nemendur skulu ganga hreinlega og prúðmannlega um húsakynni og lóð skólans og má enginn skilja eftir sig rusl, hvorki innan dyra né utan. Nemendur skulu stuðla að því að kennslustofur og aðrar vistarverur skólans séu ávallt snyrtilegar.

3.2. Nemendur skulu ganga vel um allan tækjakost og muni skólans. Nemendum er óheimilt að nýta tæki sem er að finna í kennslustofum (t.d. hljómflutningstæki, tölvur og skjávarpa) nema til komi sérstakt leyfi kennara eða skólayfirvalda. Nánar er kveðið á um umgengni og notkun á tölvum skólans í sérstökum reglum (sjá 7. kafla). Sérstakar reglur gilda um sérgreinastofur.

3.3. Ef nemendur verða valdir að skemmdum á húsakynnum eða munum skólans ber umsvifalaust að tilkynna slíkt húsverði eða skrifstofu. Nemendum getur verið gert að bæta skemmdir sem þeir valda.

  1. Neysla matvæla

4.1. Leyfilegt er að neyta nestis í bekkjarstofum í frímínútum ef fullkomins hreinlætis er gætt. Neysla matvæla, drykkja og sælgætis í skólastofum og á göngum er að öðru leyti bönnuð.

4.2. Á bókasafni skólans, í sérgreinastofum og tölvuverum má hvorki neyta matar né drykkjar.

  1. Bann við neyslu tóbaks, áfengis og vímuefna

5.1. Öll tóbaksnotkun og reykingar eru bannaðar í húsakynnum skólans og á lóð hans. Þetta á við um reyktóbak, neftóbak, munntóbak og rafrettur.

5.2. Neysla áfengis og annarra vímuefna er með öllu óheimil í húsakynnum skólans og á lóð hans. Ekki má hafa slíka vímugjafa um hönd í skólanum eða koma til starfa undir áhrifum þeirra. Húsakynni skólans ná hér til allra þeirra húsa þar sem einhver starfsemi fer fram á vegum hans.

5.3. Neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð á öllum samkomum, skemmtunum, námsferðum eða ferðalögum sem eru í nafni skólans. Einnig er með öllu óheimilt að vera undir áhrifum vímugjafa við slík tækifæri.

  1. Útgáfumál nemenda

6.1. Öll útgáfustarfsemi nemenda er á þeirra ábyrgð (ritstjóra, ritnefndar og greinarhöfunda). Þar skal gætt í hvívetna orðalags sem er kurteislegt og skólanum til sóma. Sama á við um alla fjölmiðlun nemenda, t.d. útvarpsstarfsemi, sem og það efni á vefsíðum nemenda og nemendafélaga sem fellur undir vefsvæði skólans.

6.2. Óviðurkvæmilegt eða ærumeiðandi orðalag í útgáfu nemenda, í hvers kyns fjölmiðlun þeirra, sem og á vefsíðum tengdum skólanum getur varðað brottrekstri úr skóla.

  1. Reglur um tölvunotkun

7.1. Tölvubúnaður skólans er eign skólans og ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annarra þátta sem samræmast markmiðum skólans. Nemendur, sem eru að vinna verkefni vegna náms, hafa forgang að tölvum í tölvuverum skólans.

7.2. Handhafi notandanafns er ábyrgur fyrir allri notkun þess. Aðeins einn nemandi hefur heimild til að nýta hvert notandanafn. Óheimilt er að lána öðrum notandanafn sitt og óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem nemandi hefur fengið úthlutað.

7.3. Óheimilt er að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða  tölvur í eigu annarra og einnig er óheimilt að sækja, senda, geyma eða nota á neti skólans forrit sem hægt er að nota til innbrota eða annarra skemmdarverka.

7.4. Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn í eigu annarra notenda nema leyfi þeirra sé fyrir hendi og almennt er óheimilt að afrita hugbúnað eða gögn í eigu annarra án leyfis eiganda. Um allan hugbúnað gilda ákvæði höfundarréttarlaga og því er meginreglan sú að óheimilt er að afrita hugbúnað nema það sé tekið fram í notendaleyfi. Óheimilt er að afrita efni af netinu án þess að geta um heimildir.

7.5. Óheimilt er að villa á sér heimildir í samskiptum á netinu, svo sem með því að koma fram undir fölsku nafni í tölvupósti eða á spjallrásum. Óheimilt er að senda keðjubréf eða annan ruslpóst. Óheimilt er að setja óþarfa forrit eða gögn inn á gagnasvæði eða diska sem notendur hafa aðgang að.

7.6. Óheimilt er að reyna að breyta eða hafa áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda. Óheimilt er að gera breytingar eða hafa áhrif á uppsetningar eða skjáborð tölvu, svo sem með því að fjarlægja eða breyta kerfisskrám, breyta bakgrunni, táknmyndum eða skjáhvíld sé það hægt.

7.7. Skólinn áskilur sér rétt til að meðhöndla gögn og notendanúmer eftir því sem þurfa þykir svo sem að fara yfir, skoða og eyða efni á gagnasvæðum.

7.8. Meðferð hvers konar matvæla er með öllu bönnuð í tölvuverum skólans.

7.9. Menntaskólinn í Reykjavík tengist netinu í gegnum Opin kerfi og eru notendur skuldbundnir til að fylgja almennum notkunarreglum:

  • umferð frá almenningsnotendanöfnum eða fjölnotendanöfnum, sem ekki er unnt að auðkenna, er óleyfileg,
  • notkun, sem truflar vinnu annarra á netinu eða netið sjálft eða veldur því að notendur eða tölvur tapa gögnum, er óleyfileg,
  • efni, sem almennt telst ærumeiðandi eða meinfýsið, er óleyfilegt,
  • hvers kyns óumbeðin fjöldadreifing á upplýsingum svo sem á auglýsingum, stjórnmálaáróðri og keðjubréfum eða póstlistum, sem ekki viðkemur viðfangsefni listans, er óleyfileg,
  • notkun, sem veldur umferð á neti tengdu OK-neti og fer í bága við notkunarskilmála þess nets, er óleyfileg.

7.10. Þessar reglur gilda um alla umferð á skólaneti skólans, heimasíðu skólans, starfsmanna, foreldrafélags og nemendafélaga. Brot á reglum um notkun skólanetsins geta leitt til þess að lokað verði fyrir aðgang viðkomandi nemanda að tölvukerfi skólans, auk viðurlaga sem gilda um brot á skólareglum, sbr. 9. kafla.

  1. Meðferð ágreiningsmála og mála vegna brota á skólareglum

8.1. Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skólans. Miðað er við að umsjónarkennarar og námsráðgjafi séu hafðir með í ráðum við meðferð ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra.

8.2. Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna skólans og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu má vísa því til rektors. Uni málsaðilar ekki niðurstöðu rektors má vísa málinu til menntamálaráðuneytisins.

8.3. Telji nemandi, eða forráðamenn hans sé nemandi yngri en 18 ára, að brotið hafi verið á rétti nemandans, sbr. þessar skólareglur, þannig að ástæða sé til að bera fram kvörtun skulu þeir snúa sér til viðkomandi kennara, fagstjóra, umsjónarkennara eða rektors. Takist ekki að leysa málið tekur rektor það til umfjöllunar og ákvarðar um viðbrögð.

8.4. Brjóti nemandi skólareglur er honum veitt skrifleg viðvörun áður en til áminningar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum. Fái nemandi áminningu skal hún vera skrifleg þar sem fram kemur:

–    tilefni áminningar og þau viðbrögð sem fylgja í kjölfarið brjóti

nemandi aftur af sér,

–    að nemandanum sé gefinn kostur á að andmæla áminningu og skal tímafrestur hans  til þess tilgreindur.

8.5. Brjóti ólögráða nemandi reglur skólans eru foreldrar/forráðamenn látnir vita um það. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga nr. 50/1996 sem og reglugerðar Mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 5. apríl 2016.

8.6. Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti.

  1. Viðurlög vegna brota á skólareglum

9.1. Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Þeir fá ekki skotið sér undan brotum á skólareglum með skírskotun til vanþekkingar á þeim.

9.2. Skólaráð fjallar um öll alvarleg brot á skólareglum.

9.3. Í samráði við skólaráð ákveður rektor hvaða viðurlögum skuli beitt vegna alvarlegra brota á skólareglum.

9.4. Viðurlög við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir því hve skólayfirvöld telja brotið alvarlegt:

– Viðvörun kennara eða umsjónarkennara.

– Rektorsáminning.

  • Brottrekstur í allt að fimm skóladaga.
  • Brottrekstur úr skóla út skólaárið.
  • Endanlegur brottrekstur úr skóla.

Sjá einnig skólasóknarreglur og reglur um einkunnir og próf.