Bókhlaðan

Sunnan við Menntaskólann í Reykjavík stendur bókhlaða skólans sem Bókhlöðustígur er kenndur við, hvítt steinhús, oftast kallað Íþaka. Húsið var byggt á árunum 1866-67 og er fyrsta hús sem byggt er eingöngu undir bókasafn hér á landi. Klentz, danskur timburmeistari, teiknaði húsið og danskir iðnaðarmenn reistu það. Forsögu hússins má rekja til þess að enskur kaupmaður, Charles Kelsall að nafni, hreifst af því að jafnfátæk og fámenn þjóð og Íslendingar gæti haldið uppi sjálfstæðu menningarlífi. Hann ánafnaði Latínuskólanum í Reykjavík í erfðaskrá sinni (árið 1853) 1000 pundum sem notuð skyldu til þess að reisa bókhlöðu fyrir skólann.

Bókhlaðan varðveitti tvö bókasöfn. Íþöku sem var frá upphafi lestrarfélag og bókasafn skólasveina og hefur lengst af verið í bókhlöðunni. Auk þess var Bibliotheca Scholae Reykjavicensins, (BSR-safnið) sem er jafngamalt skólanum og má jafnvel rekja það til skólanna í Skálholti og á Hólum. Var það nær eingöngu notað af kennurum og var lengi vel í lessal á neðri hæð bókhlöðunnar.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á bókhlöðunni á þeim 130 árum sem liðin eru. Rishæðin var ekki innréttuð fyrr en á árunum 1928-30 og þá sem heimavist. Reyndar var hún aldrei notuð sem slík. Þar var um margra ára skeið vinnustofa Finns Jónssonar málara. Inngangurinn var þá fluttur á austurhlið hússins þar sem hann er enn og gluggi gerður á suðurgaflinn þar sem dyrnar höfðu verið. Hinn fyrsta mars 1930 var lessalurinn opnaður og voru þar sæti fyrir 50 safngesti. Bókaskápar sem náðu frá gólfi til lofts voru settir meðfram öllum veggjum og var gler fyrir þeim að ofanverðu.

Íþaka var líka félagsheimili nemenda, haldin voru útvarpskvöld og ríkið gaf skólanum kvikmyndavél. Árið 1935 þegar kreppan var allsráðandi var ekki hægt að kynda húsið nema 1-2 tíma á dag. Lessalnum var lokað og mestöll starfsemi bókhlöðunnar lagðist niður. Árið 1940 hernámu Bretar menntaskólann, en skólinn fékk þó að halda Íþöku. Eftir að hernámi skólans lauk 1942 var þar greiðasala fyrir nemendur skólans og var sú starfsemi þar allt til ársins 1966.

Árin 1957-58 var húsinu breytt og þar rekið félagsheimili skólans. Þar voru m.a. dansleikir, málfundir og söngkennsla. Hluti Íþökusafns var sett í lítið herbergi á rishæð, hinn hlutinn settur í geymslu á háalofti skólans. Bækur BSR-safnins voru settar í geymslu (1957) í kjallara leikfimishússins.

Haustið 1965 var Íþökusafnið sameinað aftur og sett í bókaskápa í kjallara Casa Nova. Hljómplötusafnið sem tilheyrði Íþökusafni var flutt í loftherbergi Íþöku þar sem það er enn. Íþaka fékk svo aftur upprunalegt hlutverk sitt 1967-68. Fjörutíu árum seinna eða þann 28. febrúar 1970 er lessalurinn opnaður aftur til afnota fyrir nemendur og kennara. Þar rúmast nú 30 manns í sæti.

Lestrarfélagið Íþaka

Þegar skólinn flyst frá Bessastöðum til Reykjavíkur stofnuðu skólapiltar og nokkrir kennarar með sér lestrarfélag. Félag þetta var kallað Bókasafn skólapilta og voru því tvö aðgreind skólasöfn frá upphafi í skólanum. Ekki var mikil gróska framan af í félagi skólapilta. Árið 1879 kom hingað til lands bandaríski prófessorinn Willard Fiske, sem seinna varð prófessor í norrænum fræðum við Cornellháskóla í Íþöku í New York-ríki. Fiske sýndi skólapiltum mikinn hlýhug og vildi stuðla að auknum bóklestri þeirra. Hann gerði það að tillögu sinni að þeir stofnuðu með sér nýtt lestrarfélag og skyldu allir skólapiltar og kennarar vera félagar þess. Félagið var stofnað og í heiðurskyni við velgjörðarmann þess var ákveðið að nefna það eftir heimabæ hans, Íþöku. Þannig komst á fót lestrarfélagið Íþaka sem síðar var kallað bókasafnið Íþaka. Í fyrstu lögum Íþöku segir m.a. að tilgangur félagins sé að „efla menntun og fróðleik félagsmanna, einkum að auka þekkingu þeirra á menntunarástandi annarra núlifandi þjóða.“

Starfsemi lestrarfélagins var í upphafi með þeim hætti að ein bekkjarstofa skólahússins var notuð sem lestrarstofa félagsins. Þar máttu kennarar og skólapiltar sitja við bóklestur á sunnudögum og frídögum. Bækurnar voru fyrst geymdar í kennarastofu en bornar í lestrarstofuna á fyrrnefndum dögum. Fljótlega fékk lestrarfélagið inni í bókhlöðunni og hafði þar tvö lítil herbergi vinstra megin við gamla innganginn frá Bókhlöðustíg.

Bókasafnið Íþaka hefur alltaf verið undir stjórn nemenda sjálfra og hafa þeir frá upphafi borgað fast árgjald til safnsins. Sérstök Íþökunefnd sá um útlán úr safninu og öflun nýrra bóka. Nefndin var árlega kosin á almennum fundi skólapilta, og átti einn af kennurum skólans jafnan sæti í henni. Íþökunefnd seldi á hverju hausti hluta af bókakosti bókasafnsins til þess að afla fjár til bókakaupa og þannig endurnýja bókaeignina. Björn Ólsen rektor bannaði bókauppboðin 1895 og sagði þau vera tímaeyðslu frá námi og valda óráðsíu í fjármálum. Skólapiltar fengu þó leyfi til að halda eigin bókauppboð á vorin og seldu gamlar skólabækur. Þessi bókauppboð voru haldin langt fram á miðja tuttugustu öld.

Vorið 1965 hófst skráning og flokkun Íþökusafns samkvæmt Dewey-kerfi. Það verk vann Gunnar Karlsson sagnfræðingur. Næsta vetur var safnið flutt af lofti Íþöku í tvö herbergi í kjallara Casa Nova sem var ný bygging við skólann. Er safnið þar allt þar til það er aftur flutt í Íþöku árið 1976 þegar söfnin voru sameinuð.

Bibliotheca Scholae Reykjavicensis

Saga BSR-safnsins hefur enn ekki verið skrifuð en telja má víst að safnið eigi upptök sín í latínuskólunum í Skálholti og á Hólum. Um aldamótin 1800 voru þeir sameinaðir í Hólavallaskóla. Hann var seinna fluttur til Bessastaða og að lokum til Reykjavíkur árið 1846. Safnsins er fyrst getið svo vitað sé í fyrstu prentuðu skýrslunni um Bessastaðaskóla 1840-1841. Þar segir að bækur skólans hafi verið geymdar í turni Bessastaðakirkju og í herbergi á kirkjuloftinu. Þegar skólinn flyst frá Bessastöðum til Reykjavíkur var bókasafnið til húsa á lofti Dómkirkjunnar til ársins 1856. Þá var það flutt í þakherbergi skólahússins og er þar sennilega allt þar til að bókhlaðan reis. Bókasafninu, Bibliotheca Scholae Reykjavicensis, var þá komið fyrir á neðri hæð Íþöku. Safnið var undir yfirumsjón rektors. Þeir sem notuðu safnið voru kennarar og fræðimenn, nemendur höfðu lítið af því að segja enda í raun lokað þeim. BSR-safnið var lengi vel eitt merkasta bókasafn landsins. Á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar barst því merk bókagjöf frá Oxfordháskóla og einnig eignaðist það mörg einkasöfn helstu menntamanna 19. aldar. Árið 1862 kom út „Registur yfir Bókasafn hins Lærða skóla í Reykjavík“ sem Jón Árnason samdi.

Halldór Hermannsson prófessor segir eftirfarandi um safnið: „Ég kom í Latínuskólann árið 1892, og þá var mér einna mest forvitni að kynnast bókasafni skólans. Um vorið, þegar ég gekk inn í skólann, sá ég það fyrst gegnum gluggana á bókhlöðunni. Á skólaárinu var það opið til útláns einn dag í viku, frá kl. 2 til 3 á hverjum laugardegi. Jón Þorkelsson rektor var þar þá og sá um útlánið og varð vanalega sjálfur að leita að bókunum, sem beðið var um. En sjaldan voru margir þar, sem vildu fá lánaðar bækur. Ástæðan fyrir því var meðal annars sú, að fáir vissu, hvað bókasafnið hafði að geyma. Það voru til tvær prentaðar skrár yfir safnið, hin fyrri frá 1862 eftir Jón Árnason, hin síðari frá 1870, og á hverju ári var prentaður í skólaskýrslunni listi yfir þær bækur, sem höfðu bætzt við safnið á árinu. Mikið af því nýjasta, sem keypt var, svo sem handbækur, orðabækur og tímarit, kom þó ekki í safnið sjálft, en var geymt inni á kennarastofunni í skólahúsinu kennurunum til afnota. Í prentuðu skránum var raðað eftir efni bókanna, og sömu niðurröðun var líka fylgt á hillunum, án þess þó að bækurnar þar væru tölusettar. Engin höfundaskrá var til. Það var því enginn hægðarleikur að komast á stuttum tíma að raun um, hvað væri til á safninu.“ (Halldór Hermannsson 1946 : 171-172).

Halldór segir safnið hafa aðallega verið vísindasafn og lítið við hæfi skólapilta. Mest af bókum um klassísku málin og bókmenntir. Aðrar bækur segir hann að margar hverjar hafi verið úreltar.

Upp úr aldamótum fór BSR-safninu hnignandi. Lítið bættist við af nýjum bókum. Árið 1912 kom sú staða upp að Landsbókasafn þurfti að komast í 100.000 bindi. Var þá sótt um leyfi til stjórnvalda og gengið í skólasafnið og úr því valdar þær bækur sem forráðamenn Landsbókasafns vildu. Sagan endurtekur sig árið 1926 og aftur voru teknar bækur úr safninu og fluttar á Landsbókasafn. Þegar breytingar voru gerðar á Íþöku 1928-29 voru settir upp bókaskápar meðfram öllum veggjum lestrarsalarins frá gólfi til lofts. Bækur voru fluttar af lofti Íþöku ogr raðað nokkurn veginn eftir efni í efri skápana sem voru læstir. Í neðri skápana var því sem eftir var raðað handahófskennt og voru þeir skápar glerlausir og ólæstir. Samfara þessu eyðilagðist hin gamla röðun safnsins og spjaldskrár urðu gagnslausar. Hætt var að birta viðaukaskrá safnsins í skólaskýrslum. Seinna (1943) var Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur var fenginn til að skrásetja safnið. Við breytingar á starfsemi Íþöku 1957-58 voru bækur BSR-safnsins settar í kassa og komið fyrir í geymslu í kjallara leikfimishússins (1957). Aftur (1962) voru kassarnir fluttir í Landsbókasafn og þaðan á Laufásveg 9. Loks árið 1975 var bókunum raðað í hillur í bókageymslur í Casa Nova. Ekki hafa þær enn verið skrásettar, en í safninu eru margar merkar bækur frá síðustu öld og jafnvel enn eldri. Margar bækur eru á latínu og grísku. Hætta er á að fágætar bækur hafi glatast og skemmst við slíka meðferð.

Um 1965 var Magnús Finnbogason kennari fenginn til þess að flokka og skrá BSR-safnið. Hann útbjó sitt eigið flokkunarkerfi og voru bækurnar flokkaðar eftir því. Safnið var á lessal á neðri hæð Íþöku í lokuðum glerskápum.

Haustið 1974 var samþykkt tillaga á skólafundi um að sameina söfnin og knýja á um ráðningu bókavarðar. Við BSR-safnið starfaði reyndar kennari sem bókavörður í hlutastarfi. Þessi tvö bókasöfn, Bibliotheca Scholae Reykjavicensis og lestrarfélagið Íþaka (bókasafnið Íþaka) voru formlega sameinuð á skólaárinu 1976-1977.

Ragnhildur Blöndal

Heimildaskrá

Daníel Þórarinsson. „Bókasöfn og Bókhlaða Menntaskólans í Reykjavík“ Menntaskólinn í Reykjavík 120 ára. Reykjavík Skólafélag M.R., 1967. s. 29-36

Guðný Jónasdóttir. „Íþaka. Hundrað ára afmæli“ Skólablað M.R. 1.tbl., 56. árg. 1980. s. 16-17

Halldór Hermannsson. „Bókasöfn skólans“ Minningar úr menntaskóla. Reykjavík Ármann Kristinsson, 1946. s. 171-176

Heimir Þorleifsson. Saga Reykjavíkurskóla. II. b. Reykjavík Sögusjóður Menntaskólans í Reykjavík. 1978.

Sigurður Líndal. „Byggingarsaga Bókhlöðu Menntaskólans í Reykjavík“ Skýrsla Menntaskólans í Reykjavík skólaárið 1966-1967. Reykjavík Menntaskólinn í Reykjavík, 1967. 111-127.

Vilhjálmur Þ. Gíslason „Íþaka. Hálfrar aldar afmæli“ Skýrsla Menntaskólans í Reykjavík skólaárið 1929-30. Reykjavík, Menntaskólinn í Reykjavík, 1930. s. 1-11