Föstudaginn síðastliðinn útskrifuðust 214 stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík.  Afar mjótt var á munum á milli dúx skólans og semidúx.  Reikna þurfti meðaltöl þeirra upp á þriðja aukastaf til að fá úr því skorið að dúx skólans var Álfrún Lind Helgadóttir, sem útskrifaðist með einkunn 9,765 af náttúrufræðideild I og semidúx skólans var Inga Margrét Bragadóttir sem útskrifaðist með 9,761 af eðlisfræðideild II.  Alls hlutu 15 nemendur viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn á stúdentsprófi.

Rektor skólans, Sólveig G. Hannesdóttir rakti húsnæðisvanda sem nýstúdentarnir höfðu þurft að þola á veru sinni í skólanum.  Á fyrsta ári þeirra þurfti að loka stóru húsi á menntaskólareitnum, Casa Christi, með 10 kennslustofum.  Þá var nýnemunum kennt í öllum mögulegum krókum og kimum, m.a. á lessal Íþöku, í Hátíðarsal, íþróttahúsi, fundarsal kennara og meira að segja á kaffistofu kennara.  Árið eftir var tekið í notkun leiguhúsnæði í Austurstræti, sem fylgdu ýmsir byrjunarörðuleikar.  Nýstúdentarnir hafi sýnt þrautseigju, dugnað og úthald á þessum árum.

„Til að geta búið komandi MR-ingum góða aðstöðu til náms og samveru verðum við að vona að það standi til að byrja á vinnu við hönnun á nýju skólahúsnæði.  Nemendur MR eiga skilið þá lágmarksaðstöðu sem aðrir nemendur í framhaldsskólum hafa haft árum saman: t.d. samkomustað, mötuneyti og aðgengi fyrir alla“  sagði rektor.

Formaður skólanefndar Ari Karlsson flutti ávarp fyrir brautskráningu og fulltrúar 25 ára og 50 ára stúdenta fluttu kveðju til nýstúdenta í athöfninni, auk þess sem fulltrúar nýstúdenta, Inspector scholae, Magnús Birnir Þórisson, 6.P, og forseti Framtíðarinnar, Kristrún Ágústsdóttir, 6.T, fluttu saman ræðu.

Fallegur tónlistarflutningur í athöfninni var að venju í höndum nýstúdenta, þeirra Sigríðar Margrétar Bjarkadóttur, 6.M, sem spilaði á flautu við undirleik Bjarna Gunnarssonar stærðfræðikennara og þeirra Jóönnu Marianovu Siarova, 6.S, sem söng við undirleik Helenu Sirrýjar Magnúsdóttur, 6.S, á píanó og Sigrúnar Klausen, 6.B, á fiðlu.

Á laugardagskvöld var veglegt Júbílantaball nemendasambands Menntaskólans í Reykjavík haldið í Gullhömrum.  En þar komu saman nýstúdentar, afmælisárgangar og starfsfólk skólans, kveðjur afmælisstúdenta og nýstúdenta fluttar og mikið sungið og dansað.