Lið frá Menntaskólanum í Reykjavík vann Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna, sem haldin er á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, í ár. Í liðinu voru þeir Elmar Atli Arnarson (6.Z), Jón Hákon Garðarsson (6.Z), Sigurþór Maggi Snorrason (6.Y) og Stefán Þórarinn Hermannsson (6.A).

Í keppninni reyna lið framhaldsskólanema með sér í að stjórna fyrirtæki með sem bestum árangri. Í ár tóku hvorki meira né minna en 22 lið þátt skipuð 80 framhaldsskólanemum víðs vegar af landinu. Þetta var metþátttaka.

Keppnin fór fram á Zoom en verkefni keppenda var að reka sína eigin súkkulaðiverksmiðju.

Keppnin er byggð á Edumundo-herminum sem er vel þekktur. Framhaldsskólanemarnir þurftu að framleiða fjórar súkkulaðitegundir og mikil samkeppni ríkir á súkkulaðimarkaðnum. Þau þurftu því að gera markaðskannanir, skoða keppinauta, gera rekstraráætlanir, setja niður stefnu og taka margs konar ákvarðanir.

Við óskum þessu frábæra liði innilega til hamingju með árangurinn.