Bjart er yfir Betlehem

(Ingólfur Jónsson/Lag höf.ókunnur)

Bjart er yfir Betlehem,

blikar jólastjarna.

Stjarnan mín og stjarnan þín,

stjarnan allra barna.

Var hún áður vitringum

vegaljósið skæra,

barn í jötu borið var,

barnið ljúfa, kæra.

 

Víða höfðu vitringar

vegi kannað hljóðir,

fundið sínum ferðum á,

fjöldamargar þjóðir.

Barst þeim allt frá Betlehem

birtan undur skæra,

barn í jötu borið var,

barnið ljúfa kæra.

 

Barni gjafir báru þeir,

blítt þá englar sungu.

Lausnaranum lýstu þeir,

lofgjörð Drottni sungu.

Bjart er yfir Betlehem,

blikar jólastjarna.

Stjarnan mín og stjarnan þín,

stjarnan allra barna.

 

Heims um ból

(Sveinbjörn Egilsson/Franz Gruber)

 

Heims um ból, helg eru jól,

signuð mær son Guðs ól,

frelsun mannanna, frelsisins lind,

frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind

:/: meinvill í myrkrunum lá :/:

 

Heimi í hátíð er ný,

himneskt ljós lýsir ský,

liggur í jötunni lávarður heims,

lifandi brunnur hins andlega seims,

:/: konungur lífs vors og ljóss :/:

 

Heyra má himnum í frá

englasöng: Allelújá.

Friður á jörðu því faðirinn er

fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér

:/: samastað syninum hjá :/:

Fróðleikur um lagið Heims um ból

Jólasálmurinn Heims um ból er saminn af Sveinbirni Egilssyni, fyrrum rektor. Heims um ból er sunginn við sama lag og fræga þýska jólakvæði Stille Nacht, heilige Nacht, og því hefur sá misskilningur komið upp að Heims um ból sé þýðing, en svo er ekki. Stille Nacht, heilige Nacht er eftir séra Joseph Mohr, samið 1818 og lagið er eftir organistann Franz Gruber.  („Um uppruna nokkurra sígildra jólasálma“, Lesbók Morgunblaðsins 1964)