Áætlun Menntaskólans í Reykjavík gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi
Það er stefna Menntaskólans í Reykjavík að starfsmenn og nemendur sýni samstarfsfólki sínu og nemendum alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi er ekki umborið í skólanum. Meginmarkmið þessarar áætlunar er að til sé skilvirkt ferli sem fylgt er þegar upp koma ábendingar um einelti, áreitni eða ofbeldi, að ferli slíkra mála sé öllum þeim ljóst sem í skólasamfélaginu eru og að upplýsingar um það séu aðgengilegar. Áætluninni er auk þess ætlað að vera til forvarna og stuðla að jákvæðum samskiptum og samvinnu.
Skilgreining á einelti:
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Dæmi um mismunandi birtingarmyndir eineltis:
- Andlegt einelti getur t.d. verið niðrandi athugasemdir, hótanir, stríðni, niðurlæging og uppnefni. Einnig getur verið um líkamstjáningu að ræða, svo sem augnagotur, andlitsgrettur o.s.frv.
- Félagslegt einelti, baktal, rógi dreift um viðkomandi, útilokun, hunsun eða höfnun frá félagahópi.
- Rafrænt einelti, t.d. skilaboð eða athugasemdir á samfélagsmiðlum.
- Beint líkamlegt ofbeldi, spörk, hrindingar.
- Efnislegt einelti, skemmdir á eigum svo sem fatnaði.
Skilgreining á kynferðislegri áreitni:
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Skilgreining á kynbundinni áreitni:
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Skilgreining á ofbeldi:
Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Ferill mála – nemendur
Verði nemandi fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi eða hefur vitneskju um að annar nemandi hafi orðið fyrir slíku skal hann eða aðstandendur hans greina náms- og starfsráðgjafa, umsjónarkennara eða öðrum sem hann treystir frá því. Unnið er með ábendingar í trúnaði sé þess óskað.
Mál af þessu tagi geta verið ólík, ef málið er þess eðlis er hægt að óska eftir aðkomu stoðteymis. Í stoðteymi skólans eru námsráðgjafar, rektor, kennslustjóri og hjúkrunarfræðingur.
Ferill mála – starfsmenn
Starfsmaður sem verður fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi skal snúa sér hið fyrsta til trúnaðarmanna eða rektors og tilkynna um atvikið. Þegar rektor eða trúnaðarmenn fá vitneskju um málið bregðast þeir við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir stuðning og hann veittur. Lögð er áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.
Sá aðili sem samband er haft við ákvarðar síðan í samráði við þolandann hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.
Óformleg málsmeðferð
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan skólans eru ekki upplýstir um málið.
Formleg málsmeðferð
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupóst, sms-skilaboð eða annað. Fundin skal lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun, hann gæti líka verið færður til í starfi. Málinu er fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Láti gerandi ekki af hegðun sinni og viðheldur eineltinu eða áreitninni leiðir það til uppsagnar hans úr starfi.
Stuðst var við eftirfarandi gögn við gerð þessarar áætlunar:
- Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015. Sótt 5. júní 2019 af https://www.vinnueftirlit.is/media/sem-heyra-undir-vinnuvernd/B_nr_1009_2015.pdf
- Bæklingur Vinnueftirlitsins um einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum, forvarnir og viðbrögð. Sótt 5. júní 2019 af https://www.vinnueftirlit.is/media/fraedslu–og-leidbeiningarit/einelti_og_kynferdisleg_vef.pdf
- Vefsíða Heimilis og skóla. Sótt 5. júní 2019 af https://www.heimiliogskoli.is/fraedsla/einelti/
- Stefna og viðbragðsáætlun Fjölbrautaskólans í Garðabæ í eineltismálum. Sótt 5. júní 2019 af https://www.fg.is/is/foreldrar/syn-og-stefnur/aaetlanir/eineltismal
- Eineltisáætlun Flensborgarskólans. Sótt 5. júní 2019 af http://flensborg.is/skolinn/eineltisaaetlun/
- Áætlun Borgarholtsskóla gegn einelti. Sótt 5. júní 2019 af https://www.bhs.is/skolinn/stefnur-og-aaetlanir/aaetlun-gegn-einelti/
Stefnan var síðast endurskoðuð í október 2023