Kæru nemendur,

Í dag er síðasti kennsludagur haustmisseris og síðasti kennsludagur þessa árs. Árs sem hefur verið okkur
öllum lærdómsríkt og krefjandi. Enn og aftur vil ég hrósa ykkur fyrir dugnaðinn og ótrúlega aðlögunarhæfni
sem þið hafið sýnt.

Það fer vel á því að ljúka kennslunni á sjálfan Fullveldisdaginn, 1. desember. Þennan dag varð Ísland frjálst
og fullvalda ríki og íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni. Sá árangur sem
þarna náðist byggði á þrautseigju og dugnaði íslensku þjóðarinnar en hátíðahöldin voru í skugga spönsku
veikinnar. Nú sjáum við fram á að bóluefni gegn COVID-19 er handan við hornið, það er stutt í að við getum
aftur farið að lifa eðlilegu lífi. Við förum varlega nú í jólamánuðinum, við vitum öll að tíminn vinnur með
okkur í því að vinna gegn veirunni.

Ég óska þess að ykkur megi ganga vel í prófunum sem framundan eru og við stefnum á að geta haft
staðkennslu strax í janúar. Ég bið ykkur um að fylgjast vel með í byrjun nýs árs, þið munuð fá skilaboð frá
skólanum um það hvernig kennslan byrjar.

Tvö fallega skreytt jólatré hafa verið sett upp í húsakynnum skólans. Við vonum svo sannarlega að þau geti
tekið á móti ykkur 4. janúar þannig að þið getið kvatt jólin með okkur.

Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla, vona að þið náið að slaka á og njóta samvista við ykkar
nánustu.

Með kærri kveðju,
Elísabet Siemsen, rektor.