Félagslíf hefur löngum verið áberandi hluti Menntaskólans í Reykjavík. Það starfa tvö nemendafélög innan skólans, Skólafélagið og Framtíðin.
Æðsta embætti Skólafélagsins er inspector scholae en auk hans starfa í félaginu scriba scholaris, quaestor scholaris og tvær collegae.
Þegar skólinn var fluttur til Reykjavíkur árið 1846 mynduðust allskonar hefðir og mikið var um málfundi. Árið 1875 var Bandamannafélagið stofnað en úr því klofnaði félagið Ingólfur 1878. Árið 1883 sameinuðust þessi tvö félög síðan í málfundafélagið Framtíðina sem starfar enn í dag, þó að nú starfi félagið sem nemendafélag.
Framtíðin var þó aðeins fyrir nemendur lærdómsdeildar, þ.e. nemendur í fjórða, fimmta og sjötta bekk. Nemendur gagnfræðideildar, sem sátu í fyrsta, öðrum og þriðja bekk stofnuðu með sér sitt eigið félag, Framsókn, árið 1904.
Þrátt fyrir þessa klofningu var inspector scholae alltaf trúnaðarmaður allra nemenda, en hann var valinn í fyrsta skiptið veturinn 1879-1880 og Hannes Hafstein var sá fyrsti til að gegna embættinu. Fyrst um sinn sá inspector um bænir og kirkjugöngur, en fljótlega þróaðist embættið svo að hann varð æðsti fyrirsvaramaður nemenda. Hann stjórnaði skólafundum sem flestir nemendur mættu á og fundirnir höfðu meiri þýðingu fyrir nemendur heldur en Framtíðarfundir.
Skólafélagið var stofnað um 1930 og varð þegar á leið ráðandi í félagslífi skólans. Fljótlega fóru nemendur að stofna ýmis áhugafélög undir Skólafélaginu og Framtíðinni og það er enn þann dag í dag mikið lagt upp úr undirnefndum félaganna. Þau helstu sem má nefna eru leikfélagið Herranótt, Listafélagið, Skólablaðið Skinfaxi, Félagsheimislisnefnd (Kakóland), Íþróttaráð, Menntaskólatíðindi og svo mætti lengi telja.
Starf Skólafélagsins er viðamikið, það sér um hagsmunagæslu allra nemenda, sér um megin þorra viðburða á vegum skólans svo sem dansleiki, Söngkeppni Skólafélagsins og marga smærri viðburði í cösukjallara og víðar.
Heimild : Torfi Kristjánsson. 1996. Skólablaðið 150 ára afmælisrit. Skólafélag Menntaskólans í Reykjavík. 71,2:51-53.
Stjórn skólafélagsins 2024-2025:
Inspector scholae: Diljá Karen Kristófersdóttir Kjerúlf, sími 780 2244, netfang: diljakjerulf@gmail.com
Scriba scholaris: Auður Aradóttir, sími 788 3231, netfang: audurara06@gmail.com
Quaestor scholaris: Kristján Nói Kristjánsson, sími: 863 8753, netfang: kristjannoi2007@gmail.com
Collegae: Elín Edda Arnarsdóttir, sími: 698 8815, netfang: elinedda07@gmail.com
Collegae: Herdís Sigurðardóttir Busson, sími: 833 5661, netfang: herdisbusson@gmail.com
Mercatus: Úlfur Bjarni Tulinius, sími: 781 8887, netfang: ulfurbt@gmail.com
Hægt er að hafa samband á samfélagsmiðlum félagsins (@skolafelagid) og í netfangið skolafelagid@mr.is.