Menntaskólinn í Reykjavík býður upp á eftirfarandi sumarnámskeið fyrir væntanlega og núverandi framhaldsskólanemendur. Skráning fer fram í vefverslun á heimasíðu skólans og hægt er að skrá nemendur frá 19. maí.

Málfræðigrunnur

Hvort sem nemendur fara á mála- eða náttúrufræðibraut munu þeir leggja stund á fjölbreytt nám í bæði íslensku og erlendum málum. Grunnþekking á málfræði og málvísindahugtökum er nauðsynleg til að tungumálanámið nýtist sem best. Nemendur hafa ólíkan bakgrunn en gagnlegt væri að sem flestir mættu til leiks jafn vel undirbúnir. Tungumálakennarar skólans hafa unnið saman við að bera kennsl á þau atriði sem helst þykir þörf á að bæta. Námskeiðið er hugsað sem almennur undirbúningur fyrir allt tungumálanám, óháð bakgrunni nemenda og hvaða námsbraut þeir velja.

Fjallað verður um grunnatriði í beygingafræði og setningafræði auk þess sem tungumál verða skoðuð frá ýmsum hliðum á almennum og skemmtilegum nótum. Þessi grunnáfangi er því hugsaður fyrir alla nemendur sem eru að ljúka grunnskóla og vilja undirbúa sig vel fyrir tungumálanám í framhaldsskóla.

Námið er fjarnám og lýkur því með skriflegu lokaprófi. Námið fer fram dagana 4. – 14. ágúst.

Algebrubrú

Ljóst er að velgengni í stærðfræðinámi í framhaldsskóla veltur á mjög góðri grundvallarþekkingu á algebru. Þegar framhaldsskólanám var skorið niður um eitt skólaár var gert ráð fyrir því að sú algebrukennsla sem framhaldsskólar hafa sinnt verði fært niður í grunnskóla. Hins vegar er misjafnt hversu vel nemendur eru undirbúnir. Ýmsir nemendur hafa góðan grunn í algebru, en marga skortir þekkingu. Námskeiðið er hugsað til að koma til móts við þennan nemendahóp sem vill styrkja kunnáttu sína í algebru áður en framhaldsskólanám hefst.

Námið verður blanda af stað og fjarnámi. Námið fer fram dagana 4. – 14. ágúst.

For privacy reasons YouTube needs your permission to be loaded. For more details, please see our Persónuverndarstefna.
I Accept

Vísindaenska

Stúdenta af náttúrufræðibraut MR vantar eina einingu á 3. þrepi til að uppfylla inntökuskilyrði í háskóla á Norðurlöndunum (athugið að þetta á einungis við útskriftarnemendur 2021 en ekki þá nemendur sem útskrifast 2022 eða síðar). Námskeiðinu er ætlað að gera nemendum kleift að uppfylla þessi skilyrði og þjálfa þá í lestri á flóknum fræðigreinum á ensku. Meginviðfangsefni námskeiðsins er heimildaverkefni þar sem nemendur eiga að vinna með ritrýndar vísindagreinar og gera yfirlit yfir fræðin tengt afmörkuðu efni í formi fyrirlesturs. Námskeiðið getur verið góð viðbót við enskukunnáttu fyrir alla nemendur sem hyggast stunda nám erlendis. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið a.m.k. 5 einingum á þriðja þrepi í ensku.

Námið er blandað stað-og fjarnám með lokaverkefni í formi fyrirlesturs. Námið fer fram dagana 31. maí – 4. júní.