Námsbrautir 3 ár
Lýsing og sérkenni
Menntaskólinn í Reykjavík er elsti skóli landsins og á sér merka sögu. Hann kappkostar að skila nemendum sínum vel undirbúnum út í lífið. Aðalmarkmið skólans er að veita nemendum haldgóða bóklega menntun og gera þá sem hæfasta til þess að stunda nám við háskóla jafnt hér á landi sem erlendis að loknu stúdentsprófi.
Stefnuskrá, markmið og leiðir
Skólinn leitast við að veita nemendum sínum félagslegt uppeldi og stuðla að alhliða þroska þeirra svo að þeir séu sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi.
Með markvissri kennslu, miklum en raunsæjum kröfum og öguðum vinnubrögðum leitast skólinn við að efla gagnrýna hugsun og frumkvæði ásamt ábyrgðarkennd, umburðarlyndi og víðsýni. Skólinn leitast við að efla sjálfstraust nemendanna með því að gera þeim ljóst sambandið milli árangurs og erfiðis og í náminu eru þjálfuð jafnt sjálfstæð vinnubrögð sem samvinna.
Menntaskólinn í Reykjavík leggur einnig mikið kapp á að kynna nemendum sínum menningarleg verðmæti á sviði bókmennta og lista, innlendra jafnt sem erlendra, og leitast við að gera þeim kleift að taka virkan þátt í margvíslegu menningarstarfi.
Með fræðslu sinni, kröfum og handleiðslu vill skólinn efla þekkingarleit nemenda og gera þá virka og áhugasama um áframhaldandi menntun og símenntun, um leið og hann leitast við að efla heilbrigða dómgreind og verðmætamat nemenda sinna. Menntaskólinn í Reykjavík leggur einnig áherslu á að nemendur nýti sér þá miklu möguleika sem nýjasta tækni á tölvusviðinu býður upp á, svo sem gagnabanka, nettengingar, samstarf o.fl.
Skólinn mun einnig á markvissan hátt leitast við að gera nemendur sína vel búna undir virka þátttöku í þjóðfélaginu og efla ábyrgðarkennd þeirra gagnvart einstaklingum, fjölskyldu og samfélagi; sömuleiðis að kynna fyrir þeim kröfur daglegs lífs og vinnumarkaðarins, atvinnuhætti, samfélagsskipan svo og fjármálaskyldur, einstaklingsskyldur og réttindi.
Í fjölbreyttu félagsstarfi styður skólinn við alhliða félagsþroska nemendanna. Þar fá þeir tækifæri til þess að bera margvíslega ábyrgð, taka sjálfstæðar ákvarðanir, vinna saman, sýna umburðarlyndi og skilning og láta skoðanir sínar í ljósi. Í fjölbreyttu félagsstarfi fá nemendur tækifæri til þess að uppgötva, þroska, efla og nýta ótal hæfileika.