Fimmtudaginn 17. ágúst var Menntaskólinn í Reykjavík settur í 178. sinn.

Innritun nýnema gekk vel og munu 242 nemendur hefja nám í 4. bekk í haust, 202 á náttúrufræðibraut og 40 á málabraut. Alls verða 684 nemendur við skólann í vetur.

Það er reglulega gaman að segja frá því að í ár er brotið blað í sögu skólans þegar við byrjum með starfsbraut við skólann.  Starfsbraut er ætluð nemendum sem geta ekki nýtt sér hefðbundið framhaldsskólanám.  Nám við brautina er einstaklingsmiðað og sérhæft og skipulagt með tilliti til nemendahópsins, þannig hver og einn fái nám við hæfi.  Það er von okkar að við öll tökum vel á móti þessum nýja hópi, bjóðum þau velkomin í skólann og kynnum þeim góðan skólabrag og öruggt og skemmtilegt námsumhverfi.

Það kemur fáum á óvart að á síðasta skólaári stóðu nemendur skólans sig afburðavel í hinum ýmsum keppnum.  Lið MR sigraði enn og aftur spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu Betur og ræðukeppni framhaldsskólanna, Morfís.  Nemendur úr skólanum voru í efstu sætum í landskeppnum, m.a. í líffræði, forritun, efnafræði, eðlisfræði, keppni í samningu á enskum smásögum, þýskuþraut, auk þess sem nemendur úr MR voru í miklum meirihluta í efstu sætum stærðfræðikeppna, jafnt innlendra sem erlendra.  Tveir nemendur skólans unnu ferð til New York í ritgerðarsamkeppni á vegum Oddfellow samtakanna og tveir nemendur sýndu frábæran árangur á ólympíuleikum og unnu til bronsverðlauna, annar í stærðfræði og hinn í efnafræði.

Á síðasta ári var farið í fjórar utanlandsferðir á vegum skólans.  Dönskuval fór til Kaupmannahafnar, Þýskuval til Munchen, Fornmáladeildir til Rómar og spænskunemendur við máladeild fóru til Madridar.  Ferðirnar voru allar vel heppnaðar og nemendur okkar voru, sem fyrr, skólanum sínum til sóma.  Auk framantalinna ferða voru nokkrar ferðir farnar með smærri hópa nemenda og kennara í Erasmus og Nordplus samvinnuverkefnum og sömuleiðis tók skólinn á móti erlendum nemendum og kennarahópum.

Í MR eru metnaðarfullir nemendur, sem leggja mikið á sig í námi og starfi, en standa einnig fyrir öflugu og vel skipulögðu félagslífi.  Nemendur geta svo sannarlega verið stoltir af skólanum okkar og árangri sínum í námi og í félagsstörfum.