Menntaskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri sjálfsmynd nemenda. Áhersla er lögð á öflugt og vímuefnalaust félagslíf sem er mikilvægur þáttur í forvörnum.

Hlutverk forvarnar- og félagsmálafulltrúa er m.a. að sjá um skipulagningu forvarnarstarfs skólans sem felst í því að fræða nemendur um skaðsemi áfengis, tóbaks og vímuefna og að ýta undir heilbrigt félagslíf og sterka sjálfsmynd nemenda. Í lífsleikni koma m.a. gestir frá RKÍ, HÍ (læknanemar og sjúkraþjálfaranemar) og 78-samtökunum. Hjúkrunarfræðingar skólans og námsráðgjafar sjá einnig um fræðslu og kynningar.

Forvarnar- og félagsmálafulltrúi er viðstaddur alla atburði á vegum skólans sem gæsluaðilar. Foreldrar/forráðamenn nemenda eru hvattir til að leyfa ekki eftirlitslaus partý, hvorki fyrir né eftir dansleiki, og að sækja nemendur að balli loknu.

Reglur skólans varðandi tóbak og vímuefni.

5.1. Notkun tóbaks (reyktóbaks, neftóbaks og munntóbaks) er bönnuð í húsakynnum skólans og á lóð hans.

5.2. Neysla áfengis og annarra vímuefna er með öllu óheimil í húsakynnum skólans og á lóð hans. Ekki má hafa slíka vímugjafa um hönd í skólanum eða koma til starfa undir áhrifum þeirra. Húsakynni skólans ná hér til allra þeirra húsa þar sem einhver starfsemi fer fram á vegum hans.

5.3. Neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð á öllum samkomum og ferðalögum sem eru í nafni skólans. Einnig er með öllu óheimilt að vera undir áhrifum vímugjafa við slík tækifæri.

Viðurlögum er beitt við brotum á skólareglum.

Félagsmálafulltrúi er Arnór Bjarki Svarfdal Arnarson , arnorba@mr.is og forvarnarfulltrúi er Hrefna M. Sigurðardóttir, hrefna@mr.is. Þau eru með viðtalstíma á mánudögum kl. 11:25 – 12.05

Til forvarnar- og félagsmálafulltrúa er hægt að leita í trúnaði með hvers kyns mál er tengjast forvörnum og félagslífi nemenda.