Menntaskólinn í Reykjavík var settur í dag í 177. sinn í Dómkirkjunni. Afar ánægjulegt var að sjá hversu margir mættu á skólasetninguna.

Innritun nýnema í skólann gekk vel og sóttu 467 nemendur um inngöngu í skólann. Af þessum nemendum munu 255 hefja nám í 4. bekk.  213 á náttúrufræðibraut og 42 á málabraut.  Alls verða nemendur 692 við skólann í vetur sem er fjölgun frá því í fyrra (685).  255 í 4. bekk, 232 í 5. bekk og 205 í 6. bekk.

Á síðasta skólaári varð að loka einni byggingu skólans, Casa Christi, sökum mygluskemmda. Nemendur og kennarar sýndu mikil þolgæði þegar þeim var gert að nota leikfimishúsið, lesaðstöðu í Íþöku, hátíðarsalinn og m.a.s. kennarastofu í Casa Nova sem kennslustofur.

Í ár tökum við í notkun leiguhúsnæði að Austurstræti 17, sem hefur verið endurinnréttað að okkar þörfum.  Þar verða 10 kennslustofur, félagsaðstaða nemenda og mötuneyti kennara. Framkvæmdir hafa tafist töluvert í sumar og því hefst kennsla hjá 5. bekk náttúrfræðibrauta ekki fyrr en á mánudag. Kennsla í 4. og 6. bekk hefst á morgun samkvæmt stundaskrá.

Framhaldsskólar landsins vinna flestir gott starf og bjóða upp á fjölbreytt nám.  Hver skóli hefur sína sérstöðu, sem hlúa ber að. Í MR eru metnaðarfullir nemendur sem leggja mikið á sig í námi og starfi, en jafnframt standa fyrir öflugu og vel skipulögðu félagslífi. Við getum svo sannarlega öll verið stolt af skólanum okkar og árangri ykkar, í námi sem og í félagsstörfum.