Menntaskólinn í Reykjavík er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru UNESCO-skólar hér á landi því orðnir 20 talsins, einn leikskóli, sjö grunnskólar og 12 framhaldsskólar.

UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim.

Mikill kraftur hefur verið í starfi UNESCO-skóla hér á landi undanfarin ár og aukinn áhugi skóla að taka þátt. Skólar leggja nú almennt meiri áherslu á mannréttindi, alþjóðasamvinnu og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. UNESCO-skólaverkefnið byggir einmitt á viðkomandi þáttum.

Þess má geta að fleiri skólar hér á landi eru í umsóknarferli og því von á mikilli fjölgun.

Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu og styður við framgang aðgerðar 8 í menntastefnu stjórnvalda, raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum, auk þess að styðja við stefnu um barnvænt Ísland og að efla lýðræðis- og mannréttindamenntun.

Á myndinni má sjá Einar Hreinsson konrektor MR, ásamt hressum nemendum í 6.T með UNESCO-skírteinið.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á: https://un.is/unesco-skolar/