Í vetur var stofnaður minningarsjóður á grunni eldri sjóðs, sem lagður var niður. Dr. Ólafur Dan Daníelsson (f. 1877, d. 1957) var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka doktorsprófi í stærðfræði. Hann varði doktorsritgerð við Kaupmannahafnarháskóla 1909 við gott lof.
Ólafur kenndi stærðfræði við Menntaskólann í Reykjavík (þá Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík) frá 1919 til 1941 og var hvatamaður að stofnun nýrrar stærðfræðideildar við skólann 1919.
Ólafur skrifaði fjórar kennslubækur í stærðfræði fyrir nemendur skólans, en notkun þeirra varð útbreidd í skólum landsins (Reikningsbók, 1920, Um flatarmyndir, 1920, Kennslubók í hornafræði, 1923 og Kennslubók í algebru, 1927). Ólafur var talsmaður þess að kenna stærðfræði á íslensku, í stað dönsku, eins og þá tíðkaðist. Haft er eftir honum:
„Það er í rauninni öldungis undravert, hversu lengi íslenzkir kennarar hafa látið sér lynda að kenna stærðfræði hér í skólunum á danskar bækur. Mönnum er ef til vill ekki ljóst að þetta sé neitt athugaverðara en að kenna aðrar greinar, t.d. landafræði á erlendum málum. Hér er þó allt öðru máli að gegna því að stærðfræðin er sú eina æfing í hreinni rökfræði sem skólarnir veita. Um þetta held ég að ekki verði deilt. En að Íslendingar byrji að æfa sig í rökfræði á dönsku, í stað þess að æfa hana á sínu eigin móðurmáli, því má hver hæla sem vill fyrir mér. … En stærðfræðin er fyrst og fremst sjálfstæð vísindagrein, sú fullkomnasta sem til er – og auk þess eru ýmsar aðrar höfuðgreinar vísindanna (t.d. eðlisfræði, statistik, stjörnufræði o.s.frv.) ritaðar á merkjamáli stærðfræðinnar.“
Meðfram kennslu stundaði Ólafur vísindarannsóknir í stærðfræði og birti greinar í tveimur helstu tímaritum stærðfræðinga í Norður-Evrópu. Þess má geta að Íslenska stærðfræðafélagið var stofnað á sjötugafmæli Ólafs 31. október 1947.
Við brautskráningu í vor verða veitt verðlaun í fyrsta skiptið úr minningarsjóði Dr. Ólafs Dan Daníelssonar, og verða þau veitt í minningu Birgis Guðjónssonar, ástsæls stærðfræðikennara við skólann, sem féll frá fyrr á þessu ári.