Kæru nemendur,
Nú er haustmisserinu að ljúka og í dag kl. 14:00 verður opnað fyrir einkunnir í INNU.
Það verður aldrei of oft sagt að þið hafið sýnt fágætan dugnað og aðlögunarhæfni á þessu haustmisseri,
misseri sem hefur verið krefjandi í náminu og algjörlega einstakt í allri skólasögunni. Þið hafið jafnframt
verið rænd öllu félagslífi. Við gerum okkur grein fyrir að það er sá þáttur skólastarfsins sem ekki hefur
verið hægt að leysa með góðu móti. Ósk okkar er sú að hægt verði á einhvern hátt að koma félagslífinu
af stað á nýju ári, til þess hafa nemendafélögin stuðning okkar með þeim takmörkunum sem við búum
við hverju sinni. Ég vil nota þetta tækifæri og hrósa sérstaklega Inspector Scholae og Forseta
Framtíðarinnar fyrir þeirra störf á haustmisserinu. Þau bjuggust svo sannarlega ekki við þeim áskorunum,
sem hafa mætt þeim, þegar þau buðu sig fram til þessara embætta.
Kennsla á vormisseri 2021 hefst þriðjudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá. Áhersla verður lögð á
staðnám en ég bið ykkur um að lesa póst frá mér sem mun berast mánudaginn 4. janúar um tilhögun
kennslunnar. Skipulagið byggist á þeirri stöðu sem verður í þjóðfélaginu þann daginn. Við vonum innilega
að landsmenn sýni ábyrgð yfir hátíðirnar svo unnt verði að byrja staðkennslu strax í byrjun vormisseris.
Ég óska ykkur og foreldrum ykkar gleðilegrar jólahátíðar.
Kveðja, Elísabet Siemsen rektor