Á dögunum fengum við góða gesti frá Dębica í Póllandi sem unnu með okkur að loftgæðaverkefni sem styrkt er af EEA. Í verkefninu læra nemendur að setja saman og forrita örtölvur tengdar svifryksnemum. Búnaðurinn er svo notaður til að mæla styrk svifryks í andrúmsloftinu við mismunandi aðstæður. Gestirnir okkar dvöldu í Menntaskólaselinu til að byrja með. Þaðan var farið í vettvangs- og gönguferðir auk þess sem vinnustofur voru haldnar í Selinu og hjá okkur í skólanum. Gestirnir voru himinlifandi með heimsóknina, enda lék veðrið við okkur og allir voru reynslunni ríkari eftir viðburðamikla viku.