Föstudaginn 26.maí 2023 útskrifuðust 204 stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík. Dúx skólans var Benedikt Vilji Magnússon, sem útskrifaðist með einkunn 9,75 af eðlisfræðideild I.  Semidúx skólans var Katla Ólafsdóttir sem útskrifaðist með 9,70 af fornmáladeild I, en alls hlutu 27 nemendur viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn á stúdentsprófi.

Rektor útskrifaði sinn fyrsta árgang frá skólanum og sagði í ræðu sinni að mikilvægt væri að nemendur hefðu val um það nám sem hentaði þeim.  Menntaskólinn í Reykjavík leitast við að undirbúa nemendur undir áframhaldandi bóknám og skólann sæktu nemendur sem hefðu metnað og áhuga fyrir því að standa sig vel.  „Við megum til með að standa vörð um fjölbreytni í námsvali í skólakerfinu á Íslandi. Námið sjálft verður að vekja upp innri áhuga, til að nemandinn upplifi ánægju og helgun að námi.“

Fulltrúar 25 ára, 50 ára og 70 ára stúdenta fluttu kveðju til nýstúdenta í athöfninni, auk þess sem fulltrúar nýstúdenta, Inspector scholae, Andrea Edda Guðlaugsdóttir 6.T, og forseti Framtíðarinnar, Ragnheiður Hulda Ö. Dagsdóttir 6.Q, fluttu saman ræðu.

Fallegur tónlistarflutningur í athöfninni var að venju í höndum nýstúdenta, þeirra Úlfars Freys Sigurgeirssonar 6.S, sem spilaði einleik á píanó og Katrínar Ásgeirsdóttur 6.A, sem söng við undirleik þeirra Leifs Más Jónssonar 6.Y, Kjartans Henri Birgissonar LeLarge 6.A og Valdísar Ingu Magnúsdóttur 6.T .

Að brautskráningu lokinni var móttaka fyrir starfsfólk skólans og afmælisárganga.  Þar afhenti stjórn Hollvinafélags höfðinglega gjöf, 29 nýjar tölvur í annað tölvuver nemenda.  Skólinn þakkar þeim innilega gjöfina og þann hlýhug sem skólanum er sýndur.

Á laugardagskvöld var veglegt Júbílantaball nemendasambands Menntaskólans í Reykjavík haldið í Gullhömrum.  En þar komu saman nýstúdentar, afmælisárgangar og starfsfólk skólans, kveðjur afmælisstúdenta og nýstúdenta fluttar og mikið sungið og dansað.