Í tilefni af degi íslenskrar tungu 17. nóvember efndi íslenskudeildin til ljóða- og örsagnakeppni milli nemenda og starfsfólks.  Ljóð og örsaga eftir nemanda og starfsmann, voru valin úr fjölda innsendra og verðlaunuð á Sal.  Svo skemmtilega vildi til að bæði verðlaunaljóðið og -örsagan voru eftir Heklu Dís O‘Shea 5.T og átti Bjarni Gunnarsson stærðfræðikennari bæði verðlaunaljóð og -örsögu í flokki starfsmanna.  Til hamingju bæði tvö!

 

Hrókur alls fagnaðar

Hann læðist í kringum mig, tiplar á tánum.

Strýkur varirnar og hvíslar öllu því óþægilega sem vitað er um mig.

Honum finnst ég vera veikburða, aum.

Við kynntumst á Blásteini fyrir mörgum öldum, ég ölvuð af ást undir áhrifum hans.

Heilinn grautur gerður úr minnisleysi örlagaríka kvöldsins.

Skuggi hans lét mig ekki í friði árin á eftir.

Hann er dauðadæmd minning, eftirsjáanlegur atburður og lamandi tilfinning.

Svört mygla í vínrauða hjarta mínu, sannleikurinn.

 

Höfundur:  Hekla Dís O‘Shea 5.T

 

Íslenskan

Við þökkum fyrir okkar móðurmál

og minnum okkur á það sem er brýnast,

að íslensk tunga auðgar líf og sál

og er sá fjársjóður sem ei má týnast.

 

Íslenskan oft lyftir huga hátt

í heimi þeim sem menning okkar geymir,

í önnum dagsins einnig hefur mátt,

áhrif góð sem þjóðarsál ei gleymir.

 

Höfundur: Bjarni Gunnarsson stærðfræðikennari