Menntaskólinn í Reykjavík var settur í 180. sinn þriðjudaginn 19. ágúst í Dómkirkjunni. Nemendur og starfsfólk gengu saman fylktu liði frá Gamla skóla yfir í Dómkirkjuna.

Aðsókn í skólann í vor var góð og sóttu fleiri nýnemar um en komust að.   290 nemendur munu hefja nám við skólann í vetur.  242 á náttúrufræðibraut og 48 á málabraut.

Alls verða 753 nemendur við skólann í vetur, nokkuð fleiri en í fyrra (714).  290 í 4. bekk, 252 í 5. bekk, 204 í 6. bekk og 7 nemendur á starfsbraut.

Eins og fyrri ár hefur sumarið verið vel nýtt til viðhalds á húsnæði skólans.  Í Gamla skóla hafa stofur A, B og T verið gerðar upp.  Hljóðvist, lýsing og loftgæði eru nú allt önnur í þessum stofum.  Vonandi fáum við fleiri stofur gerðar upp á sambærilegan hátt næsta sumar.  Ýmislegt annað var framkvæmt í sumar, t.d. fékk skólinn rausnarlega og fallega gjöf listaverka frá afmælisárgangi stúdenta sem útskrifuðust 1975.  Þið sjáið þau listaverk á göngum Casa Nova.

Við bjóðum nemendur og starfsfólk velkomið aftur til starfa.