Erfðafræðival skólans fór á dögunum í námsferð til Kalundborg í Danmörku. Ferðin var styrkt af Erasmus+ áætluninni. Vinur okkar hann Jesper Stensbo Knudsen tók á móti okkur og skipulagði dagskránna, sem var í alla staði áhugaverð og fróðleg. Við fengum kynningu á starfsemi lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk fyrsta daginn. Næsti dagur var annasamur en þá byrjuðum við á að heimsækja Kalundborg Forsyning sem er mikilvægur hlekkur í viðamiklu hringrásarkerfi, Kalundborg Symbiosis, þar sem stofnanir og fyrirtæki hjálpast að við að gernýta hliðarafurðir vinnsluferla sem hráefni í aðra vinnslu til að lágmarka aðflutning og úrgang á svæðinu. Þá heimsóttum við nýsköpunarfyrirtækið Unibio, sem vinnur lífmassa úr methanbakteríum til fóðurframleiðslu og að lokum fengum við að gægjast inn í iðnaðarleyndardóma ensímframleiðslufyrirtækisins Novonesis. Síðasta daginn kynntumst við frábærri aðstöðu framhaldsnema til að vinna rannsóknarverkefni sín í Helix Lab og að lokum fengum við að spreyta okkur á að forrita þjarka í verklegri aðstöðu verkfræðinema í Helix Lab. Að lokum var nemendum boðið til hrekkjavökufögnuðar á Campus.

Við þökkum Jesper og félögum kærlega fyrir konunglegar móttökur í Kalundborg.