Menntaskólinn í Reykjavík

Laugardaginn 15. mars var opið hús í Menntaskólanum í Reykjavík. 10. bekkingar og forráðamenn þeirra voru boðnir velkomnir í skólann til að kynna sér nám, félagslíf nemenda og annað starf í skólanum. Nemendur og starfsfólk skólans sáu um kynninguna og er þeim þakkað fyrir framlag þeirra við afar vel heppnaða kynningu. Mörg hundruð gesta komu í heimsókn í skólann á opna húsið og var slegið aðsóknarmet í gestafjölda að þessu sinni.  Við þökkum öllum þeim sem komu í heimsókn til okkar þennan dag.

Opið hús verður í Menntaskólanum í Reykjavík laugardaginn 15. mars kl. 14-16.  Kynningin er ætluð 10. bekkingum og forráðamönnum þeirra en skólastarf m.a. nám og félagslíf verður kynnt.  Nemendur, kennarar og annað starfsfólk skólans taka á móti gestum og verður þeim boðið að ganga um húsnæði skólans og kynna sér starfið í skólanum.  Allir eru hjartanlega velkomnir.

Úrslitakeppni í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram laugardaginn 8. mars. Keppendur voru 31 og komu 24 frá MR.  MR-ingar stóðu sig mjög vel í keppninni eins og sjá má hér að neðan og skipuðu sér í efstu sætin:  

Sæti: Nafn: Bekkur:
1. Sigurður Jens Albertsson 5.X
2. Kristján Andri Gunnarsson 6.X
3. Garðar Andri Sigurðsson 5.X
4. Hjalti Þór Ísleifsson 4.S
5. Dagur Tómas Ásgeirsson 4.Z
6. Tryggvi Kalman Jónsson 6.X
7.-8. Stefanía Katrín Finnsdóttir 4.S
9. Kristín Björg Bergþórsdóttir 5.X
10. Sóley Benediktsdóttir 5.X
12.-13. Matthías B. Harksen 4.S
14.-15. Steindór Bragason 6.Y


Til hamingju með frábæran árangur!

Úrslit úr forkeppni framhaldsskólanna í eðlisfræði liggja fyrir. Fjórtán nemendum er boðið að taka þátt í úrslitakeppninni sem fram fer í Háskóla Íslands helgina 15. og 16. mars næstkomandi. Árangur nemenda skólans var afar glæsilegur og af þessum fjórtán nemendum eru ellefu úr MR.

Úrslit 13. Landskeppninnar í efnafræði eru ráðin. Í ár voru þátttakendur 105 talsins frá 5 skólum. Að undangenginni forkeppni í skólunum tóku 12 nemendur þátt í úrslitakeppni sem fram fór við Háskóla Íslands helgina 1.-2. mars síðastliðinn.

Í vorhléinu fóru 40 nemendur sem stunda þýskunám í fimmta bekk með þýskukennurum sínum í námsferð á vegum skólans til Berlínar. Veðrið lék við ferðalangana alla helgina og dagskráin var þéttskipuð. Fyrir utan að skoða helstu ferðamannastaðina í Berlín, heimsótti hópurinn nokkur sögusöfn sem lýsa vel helstu atburðum þýskrar sögu frá seinni heimsstyrjöldinni til dagsins í dag. Í ferðinni var einnig gengið um sögufrægar slóðir Berlínar og þekktustu byggingarnar og kennileitin skoðuð. Á kvöldin snæddi hópurinn saman kvöldverð hætti Berlínarbúa, m.a. á tveimur vel þekktum þýskum veitingahúsum. Mikil ánægja var með ferðina og nemendur voru að öllu leyti til fyrirmyndar og skólanum til mikillar prýði.

Þann 28. febrúar síðastliðinn var leikritið Títus eftir William Shakespeare frumsýnt á Herranótt. Leikstjóri er Orri Huginn Ágústsson.

Þegar hinn gamli keisari Rómar fellur frá er hershöfðinginn Títus Andrónikus kallaður aftur heim úr áralöngu stríði við Gota. Honum verður uppsigað við nýja keisarann, Satúrnínus, og Tamóru drottningu hans, sem á harma að hefna gegn Títusi. Fyrr en varir er brotist út blóðugt hefndarstríð milli keisarafjölskyldunnar og Andrónikusarættarinnar. Róm riðar til falls og gjörvöll borgin skelfur af ótta undir ógnarstjórn Satúrnínusar og Tamóru. Við fylgjum Títusi í gegnum óbærilega þjáningu hans og sjáum hvernig hefndarþorsti knésetur stórveldi, því að blóð kallar alltaf á meira blóð. Títus er fyrsti harmleikur William Shakespeare og sá langblóðugasti. Hann hefur notið gríðarlegra vinsælda um allan heim og hefur verið líkt við kvikmyndir Quentin Tarantino. En verkið er svo miklu meira en hasarleikrit, það lýsir á einlægan hátt djúpstæðri sorg og úrræðaleysi manna á hjara samfélagsins. Þessi einstaki mannskilningur Shakespeare, í bland við gífurlega spennu er það sem gerir Títus að stórbrotnu leikverki.

Leikritið er sýnt í Gaflarahúsinu í Hafnarfirði. Hægt er að nálgast miða á midi.is eða í skólanum.

Sýningar hefjast kl. 20 og aðeins eru fjórar sýningar eftir.  Þær verða föstudaginn 7. mars, föstudaginn 14. mars, laugardaginn 15. mars og þriðjudaginn 18. mars.

Við þökkum Atla Frey Þorvaldssyni í 5.M, Grétari Sæmundssyni í 6.R og Jóni Kristni Einarssyni í 4.A fyrir þá gríðarlega miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig sem fulltrúar MR í spurningakeppninni Gettu betur.  Þeir kepptu í undanúrslitum föstudaginn 28. febrúar við lið MH og var keppnin gríðarlega spennandi og hnífjöfn allt til loka.  Gettu betur lið skólans var sannarlega skóla sínum og nemendum hans til mikils sóma með drengilegri og prúðmannlegri framkomu í keppninni.

Minningarsjóður Önnu Claessen laCour til styrktar íslensku námsfólki sem vill stunda framhaldsnám í Danmörku auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki á árinu 2014.

Stefnt er að því að styrkveitingar á þessu ári verði í heild jafnvirði um 2 milljóna íslenskra króna, en styrkirnir eru veittir í dönskum krónum þar sem um danskan sjóð er að ræða. Einkum er ætlast til að þeir sem stunda eða hafa stundað nám í Menntaskólanum í Reykjavík njóti styrkjanna, en Anna varð stúdent úr þeim skóla árið 1933 tæplega 18 ára að aldri. Ættmenni hennar tengdust einnig MR, m.a. faðir hennar, dr. med. Gunnlaugur Claessen, bæði stúdent þaðan og síðar prófdómari við skólann, en hann hóf fyrstur röntgengreiningar og röntgenlækningar hér á landi, merkilegt brautryðjendastarf sem byrjaði árið 1914 eða fyrir réttum 100 árum. Anna hélt mikilli tryggð við MR og skólafélaga sína þaðan alla tíð þrátt fyrir búsetu erlendis mestan hluta ævinnar. Að loknu stúdentsprófi nam hún þýðingarfræði í Kaupmannahöfn og hlaut 1940 löggildingu sem skjalaþýðandi. Hún sérhæfði sig í læknisfræðilegum þýðingum og naut mikils álits, þýddi m.a. á ensku mikinn fjölda doktorsritgerða þ. á m. íslenskra lækna. Safn þeirra er í Þjóðarbókhlöðu. Anna lést árið 1998.

Það var eiginmaður Önnu, Peder David laCour, sem stofnaði minningarsjóðinn og nam stofnféð jafnvirði um 40 milljóna ísl. króna. Aðsetur sjóðsins er í Kaupmannahöfn og eru styrkveitingar úr honum í dönskum krónum. Í sjóðsstjórn sitja Niels Kahlke málflutningsmaður, formaður, Ólafur Egilsson fv. sendiherra og Böðvar Guðmundsson rithöfundur.

Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum er til 1. maí 2014.

Ekki eru sérstök umsóknareyðublöð fyrir styrkumsóknir en eðlilegt að hafa til hliðsjónar venjuleg eyðublöð vegna slíkra styrkja. Lagt er því í mat umsækjenda hvaða upplýsingar og gögn þeir láta fylgja til að vekja traust á umsókn sinni. Þar koma einkum til greina námsferill, prófskírteini, lýsing á náminu sem ætlunin er að stunda og kostnaði við það, staðfesting á skólavist (ef fengin er), meðmæli.

Umsóknir sem vera skulu á dönsku ber að senda í tölvupósti og stíla til formanns sjóðsstjórnarinnar:

Anna Claessen la Cour Fond

hr. advokat Niels Kahlke formand

Købmagergade 3

1150 København K

D a n m a r k

tlf. 33 12 25 50, fax 33 11 23 31

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.; - www.kahlke.dk