Menntaskólinn í Reykjavík

Dimission 6. bekkinga fór fram þ. 11. apríl. Þetta var ánægjulegur dagur fyrir bæði nemendur og kennara. 190 stúdentsefni ganga undir stúdentspróf í vor. Brautskráning stúdenta verður föstudaginn 30. maí.

Á fundi með starfsmönnum skólans og í samráði við stjórnir nemendafélaganna var samþykkt að ljúka skólaárinu með eftirtöldum breytingum:

Skrifað hefur verið undir kjarasamning milli kennara og ríkisvaldsins og verkfallinu hefur verið frestað. Fyrihuguðum stúdentsprófum í listasögu, sálfræði og tölvufræði er búið að fresta. Kennsla hefst á mánudaginn skv. stundaskrá.  Í upphafi næstu viku verður gerð grein fyrir breyttu fyrirkomulagi kennslu og prófa.  Stefnt er að því að ljúka prófum eins og útgefin próftafla segir til um en til greina kemur að bæta við kennsludögum á laugardögum og í páskaleyfi en ekkert hefur enn verið ákveðið í þeim efnum.

Á laugardaginn verður haldið stúdentspróf í fornfræði og hagfræði, á þriðjudaginn í næringarfræði og á miðvikudaginn í lögfræði.

Öðrum stúdentsprófum verður frestað þar til verkfalli lýkur.  Nánari upplýsingar um breytta prófdaga verða birtar síðar.

Ólympíuleikarnir í eðlisfræði fara fram í Astana í Kazahstan 13.-21. júlí.  Í liðinu eru fimm nemendur þar af eru þrír nemendur skólans:

  1. Bryndís María Ragnarsdóttir, 5.X
  2. Hringur Ásgeir Sigurðarson, 6.X
  3. Sólveig Ásta Einarsdóttir, 6.Y

Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur í úrslitakeppni framhaldsskólanna í eðlisfræði og óskum þeim góðs gengis á Ólympíuleikunum í sumar.

Verkfall framhaldsskólakennara er skollið á.  Öll kennsla nema stundakennsla fellur niður og verkfallið nær einnig til námsráðgjafa. Stundakennsla er í eðlisfræði að hluta í 5.M og 5.S, fornfræði 6. bekkjar, hagfræði, íslensku í 6.B, lögfræði, málvísindum, næringarfræði, sögu að hluta í 3.A, 3.E, 6.M og 6.R og stærðfræði í 5.S. Nemendur eru hvattir til að fylgja ráðleggingum rektors en hann gekk í alla bekki fyrir helgi og hvatti nemendur til að sækja skólann og nota aðstöðuna í skólanum til að stunda áfram nám sitt.  Við vonum að vinnudeilan leysist fljótlega.

Um helgina voru haldnir tvennir tónleikar með uppfærslu á Carmina Burana eftir Carl Orff. Flytjendur voru Dómkórinn í Reykjavík, Kór Menntaskólans í Reykjavík og drengir úr Skólakór Kársness.  Kári Þormar er stjórnandi Dómkórsins og Skólakórs MR og Þórunn Björnsdóttir er stjórnandi Skólakórs Kársness.  Einsöngvarar á tónleikunum voru Hallveig Rúnarsdóttir, Jón Svavar Jósefsson og Þorbjörn Rúnarsson.  Helga Bryndís Magnúsdóttir og Kristinn Örn Kristinsson léku á píanó ásamt slagverkssveit.  Stjórnandi var Kári Þormar.

Tónleikarnir tókust afar vel og var Langholtskirkja fullsetin á tvennum tónleikum sunnudaginn 16. mars.  Við færum öllum sem komu að þessum tónleikum hamingjuóskir og innilegar þakkir fyrir afar vel heppnaða tónleika.

Úrslitakeppni í eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram helgina 15.-16. mars. 14 nemendum var boðið að taka þátt í úrslitakeppninni. Keppendum sem lentu í efstu sætunum og verða ekki orðnir tvítugir þegar Ólympíukeppnin í eðlisfræði fer fram býðst að vera í Ólympíuliðinu sem keppir í Kasakstan í júlí í sumar. Árangur nemenda skólans var mjög glæsilegur og eru fimm nemendur úr MR sem lentu í efstu sex sætunum.  Fjórum þeirra býðst að vera í Ólympíuliðinu. Í efstu sætunum eru:

Garðar Andri Sigurðsson, 5.X, 1. sæti
Sigurður Jens Albertsson, 5.X, 2. sæti
Tryggvi Kalman Jónsson, 6.X, 3. sæti
Sólveig Ásta Einarsdóttir, 6.Y, 5. sæti
Hringur Ásgeir Sigurðsson, 6.X, 6. sæti 

Við óskum þeim til hamingju með glæsilegan árangur.