Menntaskólinn í Reykjavík

  • Fjallgangan sunnudaginn 15.sept
    Skráningu er lokið í fjallgönguna um Svínaskarð nk. sunnudag 15 sept. Mikilvægt er að allir þátttakendur mæti stundvíslega kl. 8.45 á malarbílastæðin neðan við HÍ þaðan sem farið verður á rútum. Ekki má fara á einkabílum. Mikilvægt er að hafa gott nesti meðferðis og skjólgóðan klæðnað í samræmi við veðurfar.  Hér má finna útbúnaðarlista og fleiri upplýsingar. Áætluð heimkoma er á milli 15.30 og 16.00.

Skólinn verður settur fimmtudaginn 22. ágúst. Nemendur safnist saman fyrir framan skólann kl. 13:50, þaðan verður gengið til skólasetningar í Dómkirkjunni. Eftir skólasetningu fá nemendur stundaskrár og upplýsingar um námið framundan.

Kennsla hefst föstudaginn 23. ágúst skv. stundaskrá.
Hlekkir í bókalista eru birtir í kaflanum Nemendur.

Starfsmannafundur verður á Hátíðasal fimmtudaginn 22. ágúst kl. 10.

Rektor

Íslendingar eignuðust heimsmeistara og Evrópumeistara í 800 m hlaupi kvenna í sumar. Aníta Hinriksdóttir varð heimsmeistari á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Donetsk í Úkraínu þann 14. júlí og aðeins sex dögum síðar bætti hún Evrópumeistartitli 19 ára og yngri í safnið í Rieti á Ítalíu.

Við öll sem tilheyrum skólasamfélagi MR erum mög stolt af afreki Anítu. Slíkur árangur krefst mikils dugnaðar og aga og hefur Aníta lagt á sig mikla vinnu samfara krefjandi námi í MR, en hún lauk 3. bekk í vor.  Við óskum Anítu Hinriksdóttur til hamingju með frábæran árangur.

Heimir Þorleifsson, fyrrverandi menntaskólakennari við Menntaskólann í Reykjavík lést 17. júlí sl.

Heimir Þorleifsson fyrrverandi sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík lést hinn 17. júlí. Hann var ráðinn sögukennari við skólann 1961 og var deildarstjóri í sögu og félagfræði til 1994.  Heimir Þorleifsson var mikilvirkur höfundur fræðirita og kennslubóka í sagnfræði.  Meðal bóka hans eru Frá einveldi til lýðveldis - Íslandssaga eftir 1830, Mannkynssaga BSE - Fornöld, Saga Reykjavíkurskóla í fjórum bindum auk fjölda annarra merkra fræðirita.  Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir skólann, m.a. formaður Félags kennara við MR.

Minningarsjóður Önnu Claessen la Cour árið 2013
til framhaldsnáms og rannsókna í Danmörku

Minningarsjóður Önnu Claessen la Cour veitti nýlega 12 Íslendingum styrki til framhaldsnáms og rannsókna í Danmörku. Þetta er fyrsta styrkveiting sjóðsins sem stofnaður var fyrir fáum árum skv. ákvæðum í erfðaskrá Peder la Cour eiginmanns Önnu.

Anna var stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík og hafði hún og ættmenni hennar traust tengsl við skólann um langa tíð, en framhaldsnám sitt í tungumálum og þýðingarfræðum stundaði Anna aðallega í Danmörku. Þar átti hún síðan merkan starfsferil sem löggiltur skjalaþýðandi með læknisfræðilegar þýðingar sem sérgrein. Naut Anna viðurkenningar langt út fyrir landsteina og þýddi meðal annars á ensku fjölda doktorsritgerða í læknisfræði, þ.á.m. íslenskra lækna.

Styrkirnir eru veittir í dönskum krónum og nema að heildarfjárhæð jafnvirði rúmlega 3,2 milljóna íslenskra króna. Einstakir styrkir nema flestir sem svarar um 365 þúsund íslenskum krónum hver. Hljóta þá umsækjendur sem komnir eru áleiðis í framhaldsnámi og rannsóknum. Einnig eru veittir nokkrir byrjunarstyrkir að jafnvirði um 105 til 130 þús. íslenskra króna, aðallega nýstúdentum til að auðvelda þeim að hefja nám sitt í Danmörku.

Þeir sem styrki hljóta: Anna María Toma (læknisfræði), Auður Rún Jakobsdóttir (enska), Bjarni Árnason (húsagerðarlist), Elísabet Hugrún Georgsdóttir (húsagerðarlist), Eva María Guðmundsdóttir (umhverfislíffræði), Guðmundur J. Guðmundsson (lögfræði/Evrópuréttur), Hlín Vala Aðalsteinsdóttir (orku- og umhverfisverkfræði), Jón Kolbeinn Jónsson (dýralækningar), Kristrún Gunnardóttir (verkfræði/hljóð- og hljómburðartækni), Sara Hansen (læknisfræði) og Vilhjálmur Leví Egilsson (líffræði/sjálfbærni).

Einnig hlaut dr. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur rannsóknarstyrk til könnunar á bréfasöfnum og öðrum gögnum í Danmörku er tengjast ritstörfum hans.

Í stjórn Minnningarsjóðs Önnu Claessen la Cour, sem annast úthlutun styrkjanna, eru Niels Kahlke málflutningsmaður formaður, Böðvar Guðmundsson rithöfundur og Ólafur Egilsson fv. sendiherra í Danmörku.

Menntaskólanum í Reykjavík var slitið föstudaginn 31. maí. Brautskráðir voru 232 nýstúdentar.

Dúx árgangsins er Birta Bæringsdóttir, 6.S, með ágætiseinkunn 9,81 en þetta er sjötta hæsta einkunn í sögu skólans. Semidúx er Elínrós Þorkelsdóttir, 6.U, með ágætiseinkunn 9,62. Aðrir nýstúdentar með ágætiseinkunn voru tíu.

Kór Menntaskólans í Reykjavík söng við athöfnina undir stjórn Kára Þormars og Arna Rut Emilsdóttir og Sigrún Grímsdóttir léku á píanó og fiðlu 2. kafla úr verkinu Five Melodies eftir Sergei Prokofieff sem heitir Lento, ma non troppo.

Fjölmargir afmælisstúdentar voru viðstaddir athöfnina og færðu skólanum góðar gjafir. Við athöfnina fluttu fulltrúar afmælisstúdenta ræður. Jónas Kristjánsson talaði fyrir hönd 70 ára stúdenta, Gunnar Jónsson talaði fyrir hönd 60 ára stúdenta, Friðrik Sophusson fyrir hönd 50 ára stúdenta og Birgir Ármannsson fyrir hönd 25 ára stúdenta. Jón Áskell Þorbjarnarson ávarpaði samkomuna fyrir hönd nýstúdenta.

picasa_albumid=5885743786755602897

Norræna stærðfræðikeppnin var haldin 8. apríl. Alls tóku 83 keppendur þátt, þar af 16 frá Íslandi, 11 þeirra úr MR. MR-ingar náðu góðum árangri:

  • Sigurður Jens Albertsson 4.T  í 4. sæti
  • Benedikt Blöndal 6.X í  7. - 10. sæti
  • Sigurður Kári Árnason 6.X í 11. - 14. sæti.

Til hamingju með góðan árangur!

Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996 og Velgjörðasendiherra Sameinuðu þjóðanna í tungumálum og rektor Menntaskólans í Reykjavík  undirrituðu í dag  samning þess eðlis að vinna að vexti og viðgangi Fornmáladeildar Menntaskólans í Reykjavík.
Í samningnum segir m.a. "Menntaskólinn í Reykjavík á sér langa sögu og allt frá upphafi hafa fornmál skipað veglegan sess. Skólinn er eini skólinn hérlendis sem enn starfrækir fornmáladeild. Í þessum samningi er áréttað mikilvægi þess að efla deildina...Með því vill skólinn tryggja sérstöðu sína og frú VIgdís Finnbogadóttir verður verndari deildarinnar.

picasa_albumid=5873370420698433665
Myndirnar tók Björn Búi Jónsson

Dimission 6. bekkinga fór fram þ. 24. apríl. Þetta var ánægjulegur dagur fyrir bæði nemendur og kennara. 234 stúdentsefni ganga undir stúdentspróf í vor. Brautskráning stúdenta verður föstudaginn 31. maí.

picasa_albumid=5873366873521907617
Myndirnar tók Guðjón Ragnar Jónasson