Menntaskólinn í Reykjavík

Fornmáladeild (5A og 6A) heimsótti í gær Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Laugavegi 13. Þar fékk hópurinn kynningu á starfsemi alþjóðasviðs, málræktarsviðs, nafnfræðisviðs og orðfræðisviðs stofnunarinnar og gafst tækifæri til að skoða nokkur af gagnasöfnum stofnunarinnar, svo sem ritmálssafn Orðabókar Háskólans og örnefnasafn. Þetta er fyrri af tveimur heimsóknum á stofnunina. Fram undan er heimsókn á starfsstöð stofnunarinnar í Árnagarði í Háskóla Íslands þar sem handritasvið og þjóðfræðasvið eru til húsa.

Meðfylgjandi er mynd úr heimsókninni. Frá vinstri eru Ásta Svavarsdóttir af orðfræðisviði, Emily Lethbridge af nafnfræðisviði, Jóhannes B. Sigtryggsson af málræktarsviði og Branislav Bédi af alþjóðasviði sem tóku á móti hópnum.

 

Engin kennsla verður í skólanum föstudaginn 28. febrúar og mánudaginn 2. mars vegna vorhlés.

Félag enskukennara á Íslandi heldur árlega smásögukeppni. Hver framhaldsskóli á landinu má senda inn þrjár smásögur og eru veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin.  Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum í gær og afhenti forsetafrúin Eliza Reid verðlaunin. Menntaskólinn í Reykjavík átti sigurvegara í fyrstu tveimur sætunum. Báðir sigurvegarar eru nemendur á málabraut, þær Gabriella Sif Bjarnadóttir í 4. A í 2. sæti og Íris Erna Eysteinsdóttir i 5.B í 1. sæti.  Frábærir fulltrúar MR og óskum við þeim innilega til hamingju.

Hér er hægt að lesa sögurnar:

Crimson and Ivory

Joy

 

Nemendur í 6. bekk, á málabraut og í myndlistar- og Tolkien valáföngunum fóru til London dagana 13.-17. febrúar ásamt kennurum. Í ferðinni var farið í ýmsar ferðir, t.d. fóru málabrautarnemendur í Harry Potter göngu og skoðuðu Tower of London með leiðsögumanni. Myndlistar- og Tolkien nemendurnir fóru til Oxford, þar sem var farið á slóðir J.R.R. Tolkien og tóku gamlir MR-ingar á móti hópnum og sýndu nemendum borgina. Það er mál manna að þetta hafi líklega verið besta ferðin á vegum enskunnar árið 2020!

 

Herranótt er að sýna Rómeó og Júlíu í Gamla bíó. Athugið að aðeins fjórar sýningar eru eftir:

23. febrúar (í kvöld)

24. febrúar (mánudagur)

25. febrúar (þriðjudagur)

26. febrúar (miðvikudagur)

Allar sýningar hefjast klukkan 20. 

 

Miðasala: https://www.skolafelagid.is/midasala

Sara Hlín Gísladóttir úr 5.A sigraði í undankeppni fyrir Alþjóðlega ólympíuleika í þýsku. Hún er annar tveggja fulltrúa Íslands sem fara í sumar til Þýskalands til að taka þátt í keppninni. Ólympíuleikarnir fara fram í Dresden dagana 26. júlí – 8. ágúst.

Sigurvegarar í bekkjarkeppni í líffræðikeppni skólans: 6.S.  Þeirra á meðal er sá nemandi sem var hæstur yfir landskeppnina alla: Örn Steinar Sigurbjörnsson.  

 

 

Ármann, Birta Líf og Víkingur stóðu sig vel í kvöld og eru komin í undanúrslit í Gettu betur. Við óskum þeim til hamingju með sigurinn. 

Nemendur í dönskuvali fóru í vel heppnaða ferð til Kaupmannahafnar dagana 3. - 6. febrúar ásamt kennurum sínum, Magdalenu og Laufeyju. Meðal þess sem nemendur gerðu var að heimsækja sendiráð Íslands, fara á Íslendingaslóðir og heimsækja Jónshús. Nemendur voru skólanum til sóma í ferðinni.