mr.is
Erasmus+ námsferð til Grikklands
Mánudagur, 30. apríl 2018 20:29

erasmusgrikkland2

Á dögunum fóru fjórir nemendur 4.H ásamt tveimur kennurum til Grikklands. Nemendur dvöldu hjá fjölskyldum nemenda samstarfsskóla okkar í Píreus, hafnarborg Aþenu. Dagskrá námsferðarinnar var hlaðin áhugaverðu efni sem tengist mörgum námsgreinum sem nemendur hafa verið að læra í skólanum í vetur, t.d. í mannkynssögu, jarðfræði, líffræði, stærðfræði og tungumálum. Vettvangsnám fór m.a. fram á Akrópólishæðinni og Agoratorginu í Aþenu, í Lavríon og Thorikos þar sem nemendur brugðu sér í hlutverk þræla til forna sem hjuggu til málmgrýti og hreinsuðu úr því verðmæta málma. Við skoðuðum Póseidonhofið á Súníonhöfða og fengum þar leiðsögn við að búa til leirluktir eins og þær sem áður voru notaðar í málmnámunum. Þá var tekið á móti hópnum á búgarði þar sem stunduð er sjálfbær og náttúruleg ræktun og hópurinn fékk að spreyta sig á ýmsum sveitastörfum. Á meðfylgjandi myndum eru svipmyndir úr ferðinni. Á einni myndinni heldur Fanney að skjaldböku sem við gengum fram á nálægt Chaos. Um er að ræða einlenda tegund, Testudo marginata, sem er ekki alls ekki hversdagslegur fundur.

erasmusgrikkland5

Ferðin var liður í Erasmus+ verkefninu ROOTS, Routes to Outdoor Oriented Teaching and Sustainability. Auk MR taka þátt í verkefninu skólar í Svíþjóð, Spáni, Slóveníu og Grikklandi. Markmið verkefnisins er að sameina útivist og vettvangsnám í samræmi við markmið heilsueflandi skóla. Gaman er að segja frá því að verkefnið fékk nýlega vottun sem liður í dagskrá Menningararfsárs Evrópu 2018, en ferðin til Grikklands á góða skírskotun til einkunnarorða dagskrárinnar, Menningararfurinn, forn og nýr.

erasmusgrikkland3

Fleiri myndir og upplýsingar um ROOTS er að finna á heimasíðu verkefnisins: http://erasmus.roots.hersby.net/ og facebook síðunni: Erasmus+ KA2 2017-2020 ROOTS