Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Frá skólasetningu

Skólinn var settur í 166. sinn mánudaginn 22. ágúst. Í upphafi athafnarinnar söng Skólakór Menntaskólans undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar kórstjóra. Séra Hjálmar Jónsson ávarpaði nemendur og starfsfólk og Yngvi Pétursson rektor hélt stutta ræðu.

 
Í byrjun þessa skólaárs eru innritaðir nemendur 893 í 37 bekkjardeildum. Það hefur aðeins komið fyrir einu sinni áður að fleiri nemendur væru í einsetnum skóla en það var fyrir tveimur árum þegar 905 nemendur hófu nám við skólann.– Í vor var mjög góð aðsókn að skólanum. 247 nýnemar voru innritaðir í skólann. Af 878 nemendum, sem hófu nám sl. haust, stóðust 816 eða 93%. 7 nýir starfsmenn hefja störf við skólann í haust, fjórir kennarar koma úr leyfum, einn kennari verður í námsleyfi í vetur og fjórir kennarar verða í leyfi.

Á síðasta skólaári var frammistaða nemenda skólans góð í keppni framhaldsskólanna í ýmsum greinum. Í sumar kepptu fyrir hönd skólans þrír nemendur á Ólympíuleikum í eðlisfræði, þrír nemendur á Ólympíuleikum í stærðfræði og tveir nemendur á Ólympíuleikum í efnafræði. Rektor þakkaði þeim nemendum, sem tóku þátt í keppni í fyrra og í sumar, og kennurum skólans, sem hafa staðið hér að undirbúningi við þjálfun og framkvæmd.

Í sumar var sýningin Alþingi á Sal Lærða skólans opin í skólanum en hún var sett upp í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu  Jóns Sigurðssonar forseta á vegum afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar en það var samstarfsverkefni milli forsætisráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það voru nokkrir nemendur skólans sem höfðu umsjón með leiðsögn á sýningunni og nutu aðstoðar tveggja kennara skólans. Rektor þakkaði þeim nemendum skólans sem sáu um leiðsögnina  fyrir afar vel unnin störf og ánægjulegt samstarf í sumar og þeim kennurum sem aðstoðuðu þau.
Menntaskólinn í Reykjavík er fyrsti framhaldsskólinn á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem tekur upp frjálsan hugbúnað. Í sumar hefur verið unnið að kerfisbreytingu á tölvukerfi skólans og með þessum breytingum bjóðast öllum nemendum skólans að eignast ókeypis skólahugbúnað. Þótt vel hafi verið staðið að breytingunum má gera ráð fyrir einhverjum ófyrirséðum vandamálum næstu daga og bað rektor nemendur og starfsfólk um að sýna þessum breytingum skilning og þolinmæði.

Að lokum brýndi rektor fyrir nemendum að stunda námið vel  og hvatti þau til að sýna hvert öðru tillitssemi, kurteisi og virðingu.