Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Kynningarfundur með foreldrum

Kynningarfundur með foreldrum og forráðamönnum þriðjubekkinga var haldinn 30. ágúst. Fundurinn var afar vel sóttur og mættu hátt á fjórða hundrað manns. Tekið var á móti gestum í Sal Ráðhússins.

Yngvi Pétursson, rektor fjallaði um skólastarfið, Þengill Björnsson, inspector scholae, og Kári Þrastarson, forseti Framtíðarinnar, sögðu frá félagslífinu og Ragnhildur Bragadóttir, formaður Foreldrafélagsins flutti ávarp. Að því loknu tóku umsjónarkennarar á móti forráðamönnum í Menntaskólanum og útskýrðu nánar m.a. reglur um skólasókn, einkunnir og próf, námsráðgjöf, Innu, námsnetið og svöruðu fyrirspurnum. Síðan var gestum boðið að ganga um húsnæði skólans.

Í kynningu rektors kom m.a. fram að í ljósi mikils niðurskurðar á fjárveitingum til skólans hafi verið leitað allra leiða til að hagræða í rekstri. Í sumar var tekin ákvörðun um að taka upp frjálsan hugbúnað í tölvurekstri skólans. Menntaskólinn í Reykjavík er þriðji framhaldsskólinn sem tekur upp frjálsan hugbúnað.  Með innleiðingunni er aukinn jöfnuður  á meðal nemenda og starfsmanna tryggður þar sem allir hafa aðgang að sama hugbúnaði án endurgjalds. Innleiðing frjáls hugbúnaðar felur í sér stofnkostnað en til lengri tíma lækkar kostnaður við rekstur tölvukerfa skólans sem þýðir að aukið fé mun renna til faglegs starfs.

Skólastarf hefur verið einkar farsælt á undanförnum árum. Á síðustu árum hefur brottfall verið minna en áður eða vel innan við 2%. Á síðasta skólaári stóðust 93% nemenda, sem hófu nám sl. haust, próf og fengu því rétt til að færast upp milli bekkja. Þetta er mjög góður árangur. Góð aðsókn var að skólanum  í vor og er það afar ánægjulegt en um leið var erfitt að þurfa að hafna efnilegum nemendum um skólavist.

Að lokum ræddi rektor um félagslífið og dansleikjahald. Dansleikir eru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði og eru árshátíðir þar meðtaldar.  Á þessa dansleiki mæta m.a. félagsmála- og forvarnafulltrúi til eftirlits fyrir hönd skólans.  Aðrir dansleikir eru ekki haldnir á vegum skólans.  Boð í heimahúsum fyrir dansleiki eru alltaf áhyggjuefni.  Það hefur tíðkast á undanförnum árum að eldri nemendur bjóði nýnemum í slík boð fyrir fyrsta dansleikinn.   Að  mati stjórnar Foreldrafélagsins, forvarnafulltrúa, félagsmálafulltrúa og skólastjórnenda hafa þessi boð ekki reynst æskileg m.a. vegna  mikills aldursmunar á nemendum. Þess vegna eru það eindregin tilmæli skólayfirvalda að þessir árgangar haldi bekkjarpartý hvor í sínu lagi. Við hvetjum þriðjubekkinga til þess að koma saman fyrir busaballið og skemmta sér á heilbrigðan máta en jafnframt óskum við eftir stuðningi og aðstoð foreldra og forráðamanna við þessi partý, þ.e. að leyfa ekki eftirlitslausar skemmtanir.  Jafnframt bað rektor forráðamenn um að skrá netföng í Innu til að unnt væri að senda forráðamönnum í tölvupósti upplýsingar um ýmis mál. Að lokum þakkaði rektor gestum fyrir komuna og vonaðist eftir góðu samstarf i í framtíðinni.