Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

6. bekkingar heimsækja Alþingi.

 

Stjórnarskrá Íslands er hluti af námsefni 6. bekkjar Menntaskólans í Reykjavík í sögu. Eftir að fjallað hefur verið um fyrstu stjórnarskrána 1874 og konungskomuna sama ár er breytt um takt og stjórnarskrá lýðveldisins eins og hún er í dag tekin til umfjöllunar, ýmis lykilhugtök eru skýrð, svo sem þingræði, lýðræði og lýðveldi. Fjallað er um hlutverk forseta Íslands, ráðherra og þingsins svo og mikilvægust þættina í starfsemi þess. Einnig er farið rækilega yfir mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þessum hluta námsefnisins lýkur svo með því að nemendur fara í heimsókn í Alþingishúsið þar sem starfsmenn þingsins taka á móti þeim og sýna þeim húsið. Einnig hefur skapast sú hefð að einhver þingmaður slæst í för, oft fyrrum MR-ingur, og segir frá daglegu starfi þingmanna. Þessar heimsóknir MR-inga hafa svo sannarlega fallið í kramið hjá þingmönnum og komast stundum færri að en vilja þegar óskað er eftir leiðsögumönnum úr þeirra hópi. Einnig er orðrómur um að ýmsir 6. bekkingar hafi fengið þingmanninn í magann eftir slíka ferð.

Nemendur í  6. X heimsóttu Alþingi og þar tóku Andrés Ingi Jónsson alþingismaður og Margrét Snorradóttir á móti þeim og fræddu þá um starfshætti Alþingis. Margrét ræddi einnig við þá um Þjóðfundinn 1851 og atburðina í kringum hann. 

 

Mynd Laufey Einarsdóttir