Menntaskólinn í Reykjavík

Fréttir

Stærðfræðideild MR 100 ÁRA

Laugardaginn 5. október fagnaði Menntaskólinn í Reykjavík sögulegum tímamótum þegar 100 ár voru liðin frá því boðið var upp á nám við stærðfræðideild skólans. Af þessu tilefni efndu stærðfræðikennarar til málþings sem var afar vel sótt því um hundrað manns sóttu það.

Fyrir hádegi var haldin sýning á safni gamalla og nýrra kennslubóka í stærðfræði og gestum var boðið að ræða við stærðfræðikennara skólans. Einnig spreyttu ungir sem aldnir sig á ýmsum stærðfræðiþrautum.

 

Eftir hádegi söfnuðust gestir á Hátíðasal og hlýddu á áhugaverð erindi. Svanhildur Kaaber, sagði frá ævi og störfum Ólafs Dans Daníelssonar sem átti frumkvæði að því að koma á stærðfræðideild við skólann. Svana Helen Björnsdóttir ræddi um mikilvægi stærðfræðináms og hve mikilvægt það er að hlúa að stærðfræðimenntun og mikilvægi þess að nemendum á framhaldsskólastigi standi til boða öflugt raungreinanám. Síðan fluttu Ari Kristinn Jónsson, Einar Guðfinnsson, Sigurður Freyr Hafstein, Henning Arnór Úlfarsson og Reynir Axelsson fróðleg erindi á sviði stærðfræði. Það er ljóst að nú sem fyrr er jafnmikilvægt að efla skilning nemenda á stærðfræði og þjálfa reiknifærni þeirra. 

 

Eins og kom fram í erindum sem flutt voru á Hátíðasal eru framundan örar og áhugaverðar tækniframfarir sem krefjast góðrar undirstöðuþekkingar á sviði stærðfræði og raungreina. Skólinn þakkar innilega öllum þeim sem stóðu að þessu málþingi bæði með undirbúningi og flutningi erinda og þeim fjölmörgu gestum sem heimsóttu skólann á þessum merku tímamótum.

Fleiri myndir frá deginum má sjá hér