Menntaskólinn í Reykjavík

Erasmus +

Erasmus+ samstarfsverkefni um vatn

Menntaskólinn í Reykjavík er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem ber heitið: Water, a European task in a Global context. Inda Gymnasium í Aachen í Þýskalandi leiðir verkefnið en aðrir samstarfsskólar eru frá Búlgaríu, Grikklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni og Tyrklandi. Verkefnið miðar að því að auka þekkingu nemenda á vatni, eiginleikum þess, hringrás, uppsprettum, mikilvægi vatns sem auðlindar og að gera þá meðvitaðri um fjölbreytni vatnsnotkunar í heiminum. Auk þess er markmið með þátttöku nemenda og kennara í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem þessu: að mynda tengsl við nemendur og kennara frá hinum þátttökulöndunum, að hafa samskipti á erlendum tungumálum , að öðlast nýja reynslu með heimsóknum á framandi slóðir og að kynnast eigin heimkynnum frá öðru sjónarhorni með því að taka á móti erlendum gestum.

Verkefnið sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætluninni stendur yfir í þrjú ár, frá 2014 til 2017. Styrkurinn stendur straum af kostnaði 30 nemendaheimsókna og 23 kennaraheimsókna til hinna þátttökulandanna.

Nú þegar tímabil verkefnisins er hálfnað hafa verið haldnir fundir í Þýskalandi, Ítalíu, Íslandi og Búlgaríu. Í vor fara 3 nemendur til Póllands og á næsta skólaári er ráðgert að senda samtals 17 nemendur til Grikklands, Tyrklands og Spánar. Heimsóknirnar standa að jafnaði í eina viku.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu þess: Erasmus-plus-wet.com

EU flag-Erasmus+ vect_POS

Þetta verkefni er unnið með styrk frá Erasmus+ áætlun ESB